Handbolti

Fannar: Ég var óhræddur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Fannar Þór Friðgeirsson lætur vaða á markið í kvöld.
Fannar Þór Friðgeirsson lætur vaða á markið í kvöld. Mynd/Daníel
Fannar Þór Friðgeirsson átti stórleik er Valur tryggði sér oddaleik í baráttunni um Íslandsmeistaratitil karla í handbolta.

Valur vann í kvöld Hauka, 32-30, í framlengdum leik í Vodafone-höllinni og jafnaði þar með metin í einvígi liðanna í 2-2. Fannar Þór skoraði tólf mörk í leiknum, þar af fjögur af sjö mörkum Vals í framlengingunni.

„Ég var óhræddur enda þýðir ekkert að vera áhorfandi í svona leikjum. Maður verður að þora til að skora," sagði hann í léttum dúr.

Hann segir sóknarleik Valsmanna hafa verið góðan í kvöld eins og hann hefur reyndar verið í úrslitakeppninni allri.

„Sérstaklega miðað við hvernig hann var í deildinni. Í kvöld hættum við þó að keyra jafn grimmt á vörnina þeirra eins og við vorum búnir að gera og gerðum þetta þannig svolítið erfitt fyrir okkur. Annars fannst mér þetta ganga ágætlega," sagði hann.

Fannar á von á spennandi leik á laugardaginn. „Þetta eru tvö frábær lið sem eru í þessu einvígi og ég á von á svipuðum leik og í kvöld. Þetta mun ráðast á lokasekúndunum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×