Íslenski boltinn

Víkingar upp í annað sætið eftir sigur á Þrótti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Spangsberg Jensen tryggði Víkingum þrjú stig.
Jakob Spangsberg Jensen tryggði Víkingum þrjú stig. Mynd/Valli
Víkingar unnu 1-0 sigur á Þrótti á Valbjarnavelli í eina leik kvöldsins í 1. deild karla en sigurinn skilaði lærisveinum Leifs Garðarssonar upp í annað sæti deildarinnar.

Það var Jakob Spangsberg Jensen sem skoraði eina mark leiksins strax í upphafi en Víkingar spiluðu manni færri síðustu fjórar mínúturnar eftir að Christopher Steven Vorenkamp fékk að líta rauða spjaldið frá Valgeiri Valgeirssyni dómara. Upplýsingar um leikinn eru fengnar frá vefmiðlinum fótbolta.net.

Víkingar unnu þarna sinn fjórða deildarsigur í sumar og liðið er nú tveimur stigum á eftir toppliði Leiknis. Víkingar eru í 2. sætinu þar sem þeir eru með fleiri mörk skoruð en ÍR sem er með jafnmörg stig og jafngóða markatölu.

Það hefur lítið gengið hjá Þrótturum í sumar en þeir féllu úr Pepsi-deildinni síðasta haust og hafa tapað fimm af fyrstu sjö leikjum sínum í 1. deildinni í sumar. Þróttarar féllu niður í 9. sæti deildarinnar við þetta tap.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×