Innlent

Öll yfirheyrsluherbergi full

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari.
Öll yfirheyrsluherbergi sérstaks saksóknara voru í notkun í vikunni. Jón Ásgeir Jóhannesson er einn þeirra sem mætti til skýrslutöku.

Fjögur rannsóknarteymi við embætti sérstaks saksóknara hafa í vikunni yfirheyrt fjölda manns í tengslum við lánveitingar Glitnis og viðskipti með hlutabréf.

Meðal mála sem teymin rannsaka eru lánveitingar bankans til Stím hf. sem tengdust viðskiptum með hlutabréf í Glitni og Fl Group, kaup Glitnis á hlutabréfum í Tryggingamiðstöðinni, skuldabréfaviðskipti Saga Capital og fleiri.

Yfirheyrslurnar hófust í kjölfar húsleitar sem embætti sérstaks saksóknara gerði á um 20 stöðum um miðjan nóvember.

Ólafur Þór Hauksson, sérstakur saksóknari, segir í samtali við fréttastofu að starfsmenn embættisins hafi tekið mikla törn í yfirheyrslum í vikunni og hafa öll þrjú yfirheyrsluherbergi embættisins verið í notkun alla vikuna.

Ólafur hefur ekki nákvæma tölu á því hversu margir hafa verið kallaðir til yfirheyrslu, en staðfestir að þeir hafi verið fleiri en tíu. Hann segir góðan gang í yfirheyrslunum, en ósagt sé um annað.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mætti Jón Ásgeir Jóhannesson í skýrslutöku í vikunni, en hann mun hafa mætt án lögmanns síns.

Þá staðfesta bæði katrín Pétursdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður í glitni, og Óskar Magnússon, fyrrverandi forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar, að hafa gefið vitnaskýrslur í vikunni, og þau hafi verið spurð um viðskipti með hluti í Tryggingamiðstöðinni.

Þá hefur vefmiðillinn Pressan heimildir fyrir því að fyrrverandi stjórnarmenn Tryggingamiðstöðvarinnar, þau Guðbjörg Matthíasdóttir og Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson hafi einnig mætt til yfirheyrslu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×