Íslenski boltinn

Atli Viðar: Vorum frábærir í seinni og gátum unnið miklu stærra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Viðar Björnson.
Atli Viðar Björnson. Mynd/Anton
„Við gætum ekki verið hamingjusamari en akkurat núna," sagði FH-ingurinn Atli Viðar Björnson eftir 4-0 sigur á KR í bikaúrslitaleiknum í kvöld. Atli Viðar var þarna að verða bikarmeistari í fyrsta sinn á ferlinum.

„Ég skal viðurkenna það að þetta eru stærri tölur en mér óraði fyrir. Við vissum að þetta yrði erfiður leikur milli tveggja góðra liða. KR-ingar eru búnir að vera að fá fá mörk á sig að undanförnu þannig að það er stórkostlegt að hafa skorað á þá fjögur mörk," sagði Atli Viðar.

„Ég veit ekkert með þessi víti og það getur vel verið að þetta hafi veri strangir dómar. Það var hinsvegar dæmt víti og það er allt rétt sem dómarinn gerir," sagði Atli Viðar um vítaspyrnudómanna tvo sem komu FH í 2-0 í fyrri hálfleik.

„Við byrjuðum ekkert alltof vel og við vorum í smá basli með þá í upphafi og það var jafnræði í leiknum þangað til að við skorum. Þetta var aldrei spurning í seinni hálfleiknum, við fengum fullt að færum og hefðum getað unnið miklu stærra. Við vorum frábærir í seinni hálfleiknum," sagði Atli Viðar.

Atli Viðar fékk nokkur færi í leiknum en náði loksins að skora sextán mínútum fyrir leikslok og gulltryggja um leið sigur FH-inga.

„Ég var búinn að fá nokkur tækifæri en það var gaman að skora þetta þriðja mark sem ég held að hafi drepið leikinn. Það er líka frábært að ná að skora í bikarúrslitaleik," sagði Atli Viðar að lokum en hann mátti ekki taka þátt í úrsltialeiknum fyrir þremur árum þegar hann var í láni hjá Fjölni sem töpuðu þá fyrir FH í úrslitaleiknum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×