Íslenski boltinn

Tvær með sjö mörk í tveimur landsleikjum á móti Færeyjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði sjö um helgina.
Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði sjö um helgina. Mynd/Rósa
Íslensku stelpurnar í 17 og 19 ára landsliðunum unnu góða sigra á jafnöldrum sínum í Færeyjum um helgina. Bæði lið spiluðu tvo leiki og markatalan eftir helgina var 28-0 íslensku stelpunum í vil.

Blikinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir í 19 ára landsliðinu og Valsstelpan Elín Metta Jenssen í 17 ára landsliðinu skoruðu báðar sjö mörk í þessum tveimur leikjum.

Berglind skoraði fernu í fyrri leiknum sem 19 ára liðið vann 6-0 og hún hefði jafnvel getað skorað enn fleiri mörk í þessum leik samkvæmt heimasíðu KSÍ. Hildur Sif Hauksdóttir (Breiðablik) og Katrín Ásbjörnsdóttir (KR) skoruðu hin mörkin.

Berglind skoraði síðan þrennu í 7-0 sigri í seinni leiknum en hin mörkin skoruðu þá þær Sara Hrund Helgadóttir (Grindavík), Telma Ólafsdóttir (Valur), Sigrún Ella Einarsdóttir (FH) og Fjolla Shala (Fylkir).

Elín Metta Jensen er aðeins 15 ára gömul og var að leika sína fyrstu landsleikir en hún skoraði líka í sínum fyrsta leik í Pepsi-deildinni á dögunum.

Elín Metta skoraði 3 mörk í sínum fyrsta landsleik þegar 17 ára landsliðið vann 8-0 en þær Svava Rós Guðmundsdóttir (Valur) og fyrirliðinn Hugrún Elvarsdóttir (Stjarnan) skoruðu þá báðar tvö mörk. Glódís Perla Viggósdóttir (HK) skoraði fyrsta mark leiksins.

Elín Metta gerði betur í 7-0 sigri daginn eftir þegar hún skoraði fernu. Hin mörkin í þeim leik gerðu þær Svava Rós Guðmundsdóttir, Rakel Lind Ragnarsdóttir (HK) og Hugrún Elvarsdóttir .








Fleiri fréttir

Sjá meira


×