Íslenski boltinn

Yngvi: Þvílíkur mannskapur sem KR er með

Valur Smári Heimisson skrifar
Yngvi Magnús Borgþórsson.
Yngvi Magnús Borgþórsson. Mynd/Daníel
Eyjamaðurinn Yngvi Magnús Borgþórsson segir að það hafi verið svekkjandi að tapa fyrir KR í kvöld og falla þar með úr leik í VISA-bikarkeppni karla.

„Já, það er auðvitað alveg ömurlegt. Við hefðum viljað fara alla leið í bikarnum en þetta var leikur á milli tveggja sterkra liða. Hvorugt lið var að fá mikið af færum en þeir nýttu sín einfaldlega betur en við."

„Varnarleikurinn hjá okkur var samt sem áður góður. Gallinn var kannski sá að það slitnaði aðeins á milli miðju og sóknar og oft vantaði okkur þessa síðustu sendingu sem þarf til að klára færin en það gekk ekki hjá okkur í dag."

Þetta var fyrsti sigur KR á tímabilinu en liðið er enn án sigurs í deildinni. „Við vissum auðvitað að þeir myndu hrökkva í gang einhvern tímann. Þetta er þvílíkur mannskapur sem liðið er með og sennilega er hann sá besti í deildinni. Því miður fyrir okkur fundu þeir sig vel í kvöld."

„Annars fannst mér við byrja vel í þessu móti og vorum ágætir í dag þó svo að sigurinn hafi ekki dottið okkar megin. Við komum bara ákveðnir til baka á sunnudaginn gegn Grindavík og þýðir ekkert að gráta þetta í dag. Áhorfendurnir voru frábærir í dag og ég vona að þeir haldi áfram að styðja við bakið á okkur," sagði Yngvi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×