Handbolti

Orri Freyr: Var mjög stressaður

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Orri Freyr Gíslason
Orri Freyr Gíslason Mynd/Valli
Orri Freyr Gíslason fékk það hlutverk að gulltryggja Valsmönnum sigurinn gegn Haukum í kvöld með marki á lokasekúndunum í framlengdum leik.

Valur vann leikinn, 32-30, og jafnaði þar með metin í rimmu liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta í 2-2.

Orri fékk opið færi á lokasekúndunum og kláraði það örugglega. „Ég var reyndar afar stressaður því ég var varla búinn að grípa boltann allan leikinn. Það var því mjög ljúft að sjá hann í netinu," sagði hann og hló.

„Ég var líka alveg brjálaður fyrir leikinn að hafa ekki fengið að byrja inn á. Gamli kallinn [Sigfús Sigurðsson] var valinn fram fyrir mig og ég vildi því fá að svara því," hélt hann áfram í léttum dúr.

„Nú erum við í sigurvímu og þeir [Haukar] eru sjálfsagt mjög hungraðir eftir að hafa tapað þessum leik. Við þurfum því að mæta mjög grimmmir til leiks í oddaleiknum á laugardaginn. Þótt við unnum þennan leik þá þýðir það ekki að við vinnum þann næsta líka."

Haukar unnu mjög sannfærandi sigur á Val í síðasta leik liðanna á Ásvöllum. „Við vorum alveg rosalega lélegir þá. Varnarleikurinn var mjög slakur og sóknarleikurinn tilviljunarkenndur. Þetta gat því ekki annað orðið betra í dag og það var mjög jákvætt hvernig við náðum að svara fyrir okkur í þessum leik."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×