Fótbolti

Berlusconi hættur við að selja - Zlatan of dýr fyrir Milan

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Berlusconi er hér á góðri stundu með George W. Bush.
Berlusconi er hér á góðri stundu með George W. Bush.

Silvio Berlusconi, eigandi AC Milan, er hættur við að selja félagið eins og hann íhugaði að gera. Adriano Galliani segir síðan að félagið ætli sér ekki að kaupa Zlatan Ibrahimovic.

Þegar Berlusconi gaf það út að hann ætlaði kannski að selja félagið brugðust margir við og þar á meðal moldríkir Arabar. Peningakrísa Milan virðist ekki vera eins alvarleg núna og fyrir nokkrum vikum eins undarlega og það hljómar.

"Það er heldur ekkert auðvelt að finna mann sem þykir svo vænt um félagið að hann er til í að eyða 50 milljónum evra á ári í félagið eins og ég hef gert. Það má ekki gleyma því að Milan hefur unnið flesta bikara allra liða í heiminum. Fleiri en Real Madrid," sagði Berlusconi.

"Þökk sé AC Milan er ég sigursælasti forsetinn í knattspyrnusögunni."

Þó svo fjárhagsstaðan sé eitthvað skárri en menn töldu þá eru þeir dagar liðnir að Milan kaupi leikmenn á glórulausu verði.

"Ibrahimovic? Það er vonlaust mál. Hann er allt of dýr," sagði Galliani en hann vonast þó til þess að geta keypt Brasilíumanninn Luis Fabiano.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×