Íslenski boltinn

KSÍ skilaði hagnaði upp á tæpar 50 milljónir króna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ.
Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ. Mynd/E.Stefán
Knattspyrnusamband Íslands er búið að birta ársreikning sinn fyrir árið 2009 og það er óhætta að segja að rekstur sambandsins hafi gengið vel á síðasta ári því auk þess að greiða upp erlend skammtímalán vegna framkvæmda við skrifstofu- og fræðslusetur KSÍ þá skilaði sambandið hagnaði upp á 50 milljónir króna sem er mun betra heldur en áætlun gerði ráð fyrir.

Rekstrartekjur KSÍ á árinu 2009 námu 703 milljónum króna samanborið við 870 milljónir króna á árinu 2008. Lækkun rekstrartekna skýrist fyrst og fremst af lækkun á erlendum tekjum.

Vaxtatekjur KSÍ á árinu 2009 voru um 53 milljónir króna og innleystur gengishagnaður um 38 milljónir króna sem er mikill viðsnúningur frá fyrra ári. Hagnaður af rekstri KSÍ á árinu 2009 var 50 milljónir króna sem er mun betra heldur en samþykkt áætlun gerði ráð fyrir.

Styrkir til aðildarfélaga á árinu námu um 96 milljónum króna. Voru það styrkir úr mannvirkjasjóði, styrkir til félaga vegna barna- og unglingastarfs, leyfiskerfis og fleira.

Erlend skammtímalán, að upphæð um 600 milljónir króna, sem tekin voru vegna framkvæmda við skrifstofu- og fræðslusetur KSÍ voru greidd upp á árinu 2009 og hvíla nú engar vaxtaberandi skuldir á KSÍ í fyrsta skipti í rúman áratug.

Fjárhagstaða KSÍ er traust við áramót, lausafjárstaða góð, handbært fé um 328 milljónir króna og eigið fé tæpar 234 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×