Íslenski boltinn

Bjarni Þór tryggði strákunum dýrmætt stig í Magdeburg

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson í leiknum í kvöld.
Kolbeinn Sigþórsson í leiknum í kvöld. Mynd/GettyImages

Íslenska 21 árs landsliðið kom tvisvar til baka á móti Þýskalandi í undankeppni EM á MDCC vellinum í Magdeburg í dag og Bjarni Þór Viðarsson tryggði íslensku strákunum 2-2 jafntefli og góða stöðu í riðlunum með skora jöfnunarmarkið þrettán mínútum fyrir leikslok. Íslensku varnarmennirnir björguðu tvisvar á marklínu á lokamínútum leiksins.

Timo Gebhart, sem var einn besti leikmaður Stuttgart á móti Barcelona í Meistaradeildinni í dögunum, kom Þýskalandi í 1-0 á 10. mínútu leiksins. Gebhart skallaði þá boltann í tómt markið eftir að Haraldur Björnsson, markvörður, hafði misreiknað fyrirgjöf frá vinstri.

Það tók íslenska liðið ekki nema þrettán mínútur að jafna leikinn. Kolbeinn Sigþórsson vann boltann af aftasta varnarmanni Þjóðverja, boltinn fór til Birkis Bjarnasonar sem átti misheppnað skot sem varð að frábærri sendingu inn á Kolbein. Kolbeinn var ekki lengi að átta sig, tók markvörðinn úr jafnvægi með móttökunni og skoraði örugglega.

Þýska liðið hóf seinni hálfleikinn á algjörri stórsókn og eftir að íslenska liðið hafði verið í hálfgerði nauðvörn í nokkrar mínútur varð eitthvað undan að láta. Julian Schieber fylgdi þá eftir skoti Timo Gebhart í varnarmann og kom Þýskalandi í 2-1 á 50. mínútu.

Íslenska liðið lifði af stórsókn Þjóðverja í kjölfar marksins og sótti síðan í sig veðrið það sem eftir lifði leiks.

Bjarni Þór Viðarsson skoraði síðan jöfnunarmarkið á 77. mínútu eftir að hafa fengið stutta sendingu frá Kolbeini Sigþórssyni eftir frábæra íslenska sókn.

Kolbeinn virtist þó ætla að leggja boltann fyrir sig eftir að hafa fengið sendingu inn í teiginn frá Jóhanni Berg Guðmundssyni. Bjarni var fljótur að átta sig og skoraði með góðu skoti í stöngina og inn.

Hólmar Örn Eyjólfsson og Bjarni Þór Viðarsson björguðu síðan tvisvar á marklínu frá Timo Gebhart á lokamínútum leiksins. Í bæði skiptin þurfti frábær tilþrif frá þeim félögum svo að þessi snjalli leikmaður Stuttgart tryggði Þjóðverjum ekki sigur.

Íslenska liðið er nú með þrettán stig í öðru sæti riðilsins, tveimur stigum á eftir toppliði Tékka en jafnframt fimm stigum á undan Þjóðverjum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×