Handbolti

Óskar Bjarni: Grátlegt og ekki sanngjarnt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Óskar Bjarni á hliðarlínunni í kvöld. Mynd/Vilhelm
Óskar Bjarni á hliðarlínunni í kvöld. Mynd/Vilhelm

Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Vals, þurfti að horfa upp á sína menn missa frá sér sigurinn í fyrsta úrslitaleiknum á móti Haukum á Ásvöllum í kvöld. Valsliðið spilaði frábærlega fyrstu 50 mínúturnar og var þremur mörkum yfir þegar 7 mínútur voru eftir en tapaði síðustu sjö mínútunum 1-5 og þar með leiknum 22-23.

„Við vorum miklu sterkari en þeir en svo gáfum við aðeins eftir í lokin. Birkir fór að verja frá okkur og þeir fóru að skora einföld mörk af línu," sagði Óskar Bjarni Óskarsson, svekktur þjálfari Valsliðins í leikslok.

„Mér fannst við aðeins vera búnir á því í endann en það vantaði aðeins orku og kraft til þess að klára þetta. Við gerðum of mikið af aulamistökum varnarllega í seinni hálfleik og þeir voru að skora of einföld mörk því það var ekkert leikkerfi hjá þeim sem við vorum í vandræðum með," sagði Óskar

„Við þurftum að gera betur sóknarlega því þetta var erfitt þar í lokin. Við köstuðum þessu frá okkur sem er leiðinlegt, það hefði verið sanngjarnt að við hefðum unnið þennan leik í það minnsta náð þessu í framlengingu," sagði Óskar Bjarni og það er ljóst að hans menn eru til alls líklegir með spilamennsku sinni fyrstu 50 mínútur leiksins.

„Fólk er búið að vera gefa það í skyn að við eigum ekki möguleika í þetta einvígi en við áttum að vinna þennan leik og allavega ná í framlengingu. Þetta er bara grátlegt og engan veginn sanngjarnt," sagði Óskar Bjarni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×