Valskonur eru komnar í bikarúrslitaleikinn þriðja árið í röð eftir 3-0 sigur á Þór/KA í undanúrslitaleik liðanna í VISA-bikar kvenna í dag.
Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði öll þrjú mörkin fyrir Valsliðið. fyrstu tvö með skalla eftir fyrirgjafir frá Hallberu Guðnýju Gísladóttur og það síðasta úr vítaspyrnu á lokamínútu leiksins.
Valsliðið var mun sterkari aðilinn í leiknum en mörkin komu þó ekki fyrr en á síðustu tuttugu mínútunum.
Þór/KA voru ágengar í upphafi leiks og Rakel Hönnudóttir fékk algjört dauðafæri eftir þriggja mínútna leik en skaut framhjá ein á móti Maríu Björg í markinu.
Valsliðið vaknaði við þetta, tók völdin á vellinum og fékk í kjölfarið nokkur ágæt skotfæri í og við teiginn en ekkert dauðafæri í líkingu við færi Rakelar í upphafi leiks.
Valsliðið var muna meira með boltann en ógnaði helst eftir föst leikatriði og eftir eina hornspyrnu liðsins þurftu varnarmenn Þór/KA að bjarga á marklínu eftir skalla Katrínar Jónsdóttur.
Þór/KA ógnaði alltaf í hröðum sóknum ef þeim tókst að koma boltanum á Mateju Zver sem var mjög nálægt því að koma Þór/KA í 1-0 á 39. mínútu eftir að hafa sólað sig í gegnum Valsvörnina.
Seinni hálfleikurinn var mun rólegri en sá fyrri en Valsliðið hélt þó áfram yfirhöndinni.
Vesna Smiljkovic var komin í upplagt tækifæri á 70. mínútu en tók vitlausa ákvörðun með að gefa boltann þegar hún átti að fara sjálf. Valsliðið brunaði strax í sókn og Kristín Ýr Bjarnadóttir skallaði glæsilega fyrirgjöf Hallberu Guðnýju Gísladóttur í markið, 1-0 fyrir Val.
Þór/KA náði ekki að ógna Valsliðinu verulega eftir þetta og Kristín Ýr innsiglaði síðan sigurinn með keimlíku marki og því fyrra.
Hallbera Guðný var aftur á ferðinni upp vinstri kantinn og gaf laglega fyrir þar sem Kristín Ýr skallaði boltann í markið. Berglind Magnúsdóttir hálfvarði skotið en náði ekki að koma í veg fyrir að það færi inn.
Guðný Björk Óðinsdóttir fiskaði síðan vítaspyrnu á 89. mínútu og Kristín Ýr innsiglaði þrennuna með því að skora af öryggi úr henni.
Þrenna frá Kristínu Ýr kom Val í bikarúrslitin
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið



Ótrúleg markasúpa í Katalóníu
Fótbolti



„Eins gott að þeir fari að fokking semja“
Körfubolti

Inter í undanúrslit
Fótbolti


Aþena vann loksins leik
Körfubolti

Chelsea skrapaði botninn með Southampton
Enski boltinn