Íslenski boltinn

Gylfi: Verðum að nýta okkar færi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Edinborg skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Mynd/Valli
Gylfi Þór Sigurðsson reiknar með því að íslenska U-21 landsliðið muni fá sín marktækifæri í leiknum gegn Skotlandi í kvöld. Þau verði liðið að nýta.

„Við búumst við því að þeir verði með tvo sóknarmenn enda eru þeir á heimavelli og þurfa að skora," sagði Gylfi í samtali við Vísi. „En þá losnar líka um pláss á miðjunni. Við ættum að geta nýtt okkur það, komið boltanum út á kantinn og sótt þar hratt fram. Ef þeir ætla að sækja á okkur fáum við alltaf einhver tækifæri til að skora. Þessi tækifæri verðum við að nýta."

Fyrri leik liðanna á fimmtudaginn lauk með 2-1 sigri Íslands á Laugardalsvellinum. Það lið sem sigrar í rimmunni kemst í úrslitakeppni EM í Danmörku á næsta ári.

„Stemningin í liðinu eftir síðasta leik er fín. Við erum einbeittir og ákveðnir í því að komast áfram. Við höfum farið vel yfir leikinn og nýtt tímann til undirbúnings vel. Við höfum alltaf lagt áherslu á það að hugsa bara um næsta leik og það gerum við líka nú."

Skotar komust yfir í leiknum gegn Íslandi á fimmtudaginn en Gylfi segir að það hafi ekki dregið kjarkinn úr leikmönnum.

„Alls ekki. Við sýndum styrk með því að koma til baka og vinna leikinn. Úrslitin þýða að ef við höldum hreinu nú þá komust við áfram. En við munum samt reyna að sækja á þá enda vitum við að þeir gefa alltaf færi á sér á heimavelli."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×