Körfubolti

Teitur: Verðum ekki yfirspenntir í kvöld

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Teitur Örlygsson.
Teitur Örlygsson.
KR-ingar tóku lærisveina Teits Örlygssonar í Stjörnunni í bakaríið í fyrsta leik liðanna í úrslitum Iceland Express-deildar karla. KR vann leikinn með 30 stigum.

Stjarnan hafði þá hvílt í ellefu daga og liðið var engan veginn tilbúið í slaginn því KR keyrði yfir Garðbæinga í síðari hálfleik.

"Við dvöldum ekki of lengi við þann leik. Ég býst við allt öðrum leik frá mínu liði í kvöld. Okkur líður miklu betur núna en fyrir fyrsta leikinn. Ég hef fundið það vel á æfingum," sagði Teitur en sumir leikmanna hans virkuðu yfirspenntir í fyrsta leiknum.

"Sumir voru vissulega of stressaðir þá en ég hef ekki áhyggjur af slíku í kvöld. Ég held að það séu allir tilbúnir í þennan slag. Við erum afslappaðri."

Leikurinn í kvöld er ansi mikilvægur fyrir Stjörnumenn því tapi þeir verður KR einum leik frá titlinum.

"Annar leikurinn skiptir alltaf gríðarlegu máli. Sama hvorum megin borðsins við erum. Við lentum 1-0 undir gegn Grindavík en unnum annan leikinn. Við unnum líka annan leikinn gegn Snæfell og vonandi verður framhald á góðu gengi í öðrum leik hjá okkur í kvöld," sagði Teitur og bætti við.

"Við ætlum klárlega að selja okkur dýrt. Við erum búnir að hafa mikið fyrir því að komast í úrslitin og við verðum að nýta þetta tækifæri. Það eru margir sem myndu vilja vera þarna. Við verðum að nýta tækifærið og reyna að njóta okkur í leiðinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×