Kvennalið Fram mætir ungverska liðinu Alcoa FCK í Evrópukeppni bikarhafa í handknattleik og HK mætir franska liðinu Fleury Loiret Handball í Áskorandakeppni Evrópu. Dregið var í höfuðstöðvum Handknattleikssambands Evrópu í Vín í morgun.
Bikarmeistarar Fram sitja hjá í fyrstu umferð en koma inn í 32-liða úrslit keppninnar. Liðið leikur fyrri leikinn gegn Alcoa FCK í Safamýri helgina 3. og 4. september. Síðari leikurinn fer fram í Ungverjalandi viku síðar.
HK kemur inn í 16-liða úrslit Áskorendakeppninnar og mætir franska liðinu Floeury Loiret Handball. Fyrri leikurinn fer fram í Kópavogi 5. eða 6. nóvember og síðari leikurinn í Frakklandi viku síðar.
