Fótbolti

Knattspyrnumenn á Ítalíu hóta verkfalli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tommasi fagnar marki í leik með Roma.
Tommasi fagnar marki í leik með Roma. Nordic Photos/AFP
Leikmenn í Serie A hafa hótað því að fara í verkfall verði ekki gengið frá lausum endum í samkomulag þeirra við deildina. Tvisvar sinnum á síðustu leiktíð voru leikmenn nálægt því að fara í verkfall.

Að sögn Damiano Tommasi, formanns ítölsku leikmannasamtakanna AIC, snýst málið um að ítalska Serie A deildin eigi eftir að skrifa undir samkomulag sem tókst með aðilunum á síðustu leiktíð. Samkomulagið, sem náðist á síðustu stundu og kom í veg fyrir verkfall leikmanna, snýr að mismunun leikmanna.

Ítölsku félögin hafa oftar en ekki meinað þeim leikmönnum sem það vill ekki halda í herbúðum sínum að æfa með aðalliðinu. Það eru leikmenn afar ósáttir við. Það er sérstaklega algengt þegar leikmenn eiga innan við ár eftir af samningi sínum við félagið. Þá er síðasti möguleiki fyrir félögin að selja leikmennina áður en þeir fara á frjálsri sölu.

„Ég hef heimsótt 90 prósent liðanna á undirbúningstímabilinu og það er er einhugur meðal leikmannanna,“ segir Tommasi sem spilaði á sínum tíma fyrir Roma og ítalska landsliðið.

Að hans sögn skrifuðu AIC-samtökin undir samkomulagið á sínum tíma en ítalska deildin ekki.

„Þeir segjast ítrekað ætla að ganga frá þessu en það er þessi litla undirskrift frá deildinni sem virðist ekki ætla að skila sér,“ sagði Tommasi.

„Á síðustu leiktíð ákváðum við að stöðva ekki ítölsku deildina meðan þetta mál væri óleyst. En deildin mun ekki hefjast í ár ef ekki verið skrifað undir,“ sagði Tommasi.

Fyrsta umferð Serie A á að fara fram helgina 27. - 28. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×