Fótbolti

AC Milan hefur titilvörnina á jafntefli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Zlatan skoraði eitt fyrir Milan í kvöld.
Zlatan skoraði eitt fyrir Milan í kvöld. Nordic Photos / Getty Images
AC Milan gerði í kvöld 2-2 jafntefli við Lazio er keppni í ítölsku úrvalsdeildinni fór loksins af stað eftir verkfallsaðgerðir leikmanna í síðasta mánuði.

Þjóðverjinn Miroslav Klose skoraði fyrsta mark tímabilsins og sitt fyrsta mark fyrir Lazio er hann kom liðinu yfir á tólftu mínútu leiksins.

Djibril Cisse, fyrrum leikmaður Liverpool og annar nýr leikmaður Lazio, kom svo Rómverjum í 2-0 forystu aðeins níu mínútum síðar og útlitið gott fyrir gestina.

AC Milan náði þó að jafna metin með tveimur mörkum á fjögurra mínútna kafla um miðbik hálfleiksins frá þeim Zlatan Ibrahimovic og Antonio Cassano.

Alberto Aquilani lék sinn fyrsta leik með Milan eftir að hafa gengið til liðs við félagið frá Liverpool og hann átti þátt í báðum mörkunum í kvöld. Það fyrsta lagði hann upp fyrir Ibrahimovic sem skoraði af stuttu færi og svo tók hann hornspyrnuna sem rataði beint á kollinn á Cassano sem jafnaði þar með metin fyrir Milan.

Síðari hálfleikur var ekki jafn tíðindamikill en Milan fékk þó betri færi til að tryggja sér sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×