Lífið

Geimsteinn haslar sér völl í hipphoppinu

„Ég er búinn að fá grænt ljós frá Geimsteini," segir rapparinn Emmsjé Gauti.

Gauti hyggst senda frá sér fyrstu plötuna sína í maí og segir að um sumargrip sé að ræða. Hann hefur verið áberandi í hipphopp-senunni undanfarin misseri og rappaði meðal annars með Erpi Eyvindarsyni í laginu Elskum þessar mellur í fyrra.

Plata Erps var einnig gefin út af Geimsteini, sem virðist vera að hasla sér völl í íslenska hipphoppinu. „Þeir gefa út aðal hipphoppið. Velja vel," segir Gauti.

Björgvin Ívar Baldursson hjá Geimsteini segir það ekki vera neina sérstaka stefnu hjá útgáfunni að gefa út hipphopp. „Við gefum allavega út góða hipphoppið," segir hann léttur. „Annars gefum við út alls konar tónlist. Ef maður lítur yfir það sem kom út í fyrra hjá okkur, þá sést að þetta eru allar tegundir af tónlist. Við erum úti um allt. Gefum út það sem við fílum."

Björgvin segir aðalmarkmið Geimsteins vera að gefa út fyrstu plötur listamanna, en sú er meðal annars raunin með Gauta, hljómsveitina Valdimar og Erp, en platan sem hann sendi frá sér í fyrra var fyrsta sólóplatan hans.

„Við einbeitum okkur að grasrótinni. Ef listamennirnir vilja halda áfram hjá okkur eftir fyrstu plötuna gera þeir það – eða ekki." - afb

Hér fyrir ofan syngja Emmsjé Gauti og Ljósvaki Oh Yeah, eitt laganna á plötunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×