José Luis Rodríguez Zapatero, forsætisráðherra Spánar, kallaði í gær eftir samevrópskum viðbrögðum gegn útlendingahatri og fordómum í kjölfar hinna hryllilegu hryðjuverkaárása í Noregi.
„Þetta er einhver alvarlegasti atburður sem átt hefur sér stað í Evrópu. Hann kallar á viðbrögð, evrópsk viðbrögð, til varnar frelsi og lýðræði og gegn öfgum,“ sagði Zapatero á blaðamannafundi með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í London í gær. Zapatero hvatti í kjölfarið leiðtoga Evrópuríkja til að sameinast um viðbrögð.
Í kjölfarið vottaði Cameron fórnarlömbum árásanna samúð sína og bætti svo við: „Bretland og Spánn hafa bæði orðið fyrir barðinu á hræðilegum hryðjuverkum í fortíðinni og ég veit að við munum báðir bjóða Norðmönnum allan þann stuðning sem við getum á næstu dögum.“
Anders Behring Breivik, sem játað hefur á sig árásirnar, gaf út á netinu 1500 blaðsíðna stefnuyfirlýsingu daginn sem árásirnar áttu sér stað. Í stefnuyfirlýsingunni lýsir hann yfir stríði gegn þeim ríkisstjórnum og stjórnmálaöflum í Evrópu sem eru umburðarlynd gagnvart íslam.
Leiðtogar ríkja um allan heim hafa fordæmt árásirnar á síðustu dögum en margir hafa endurómað orð Carls Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, frá því á föstudag: „Nú erum við öll Norðmenn.“
- mþl
Kalla eftir evrópskri samstöðu gegn hatri
