Íslenski boltinn

Vill ekki taka áhættu með Katrínu og Þórunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórunn Helga Jónsdóttir og Katrín Ómarsdóttir.
Þórunn Helga Jónsdóttir og Katrín Ómarsdóttir. Mynd/Fésbókarsíða KSÍ
Þórunn Helga Jónsdóttir og Katrín Ómarsdóttir gátu ekki spilað með íslenska kvennalandsliðinu í sigrinum á Kína í Algarvebikarnum í dag og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari, telur ólíklegt að þær geti verið með í leiknum um fimmta sætið sem verður á móti Dönum á miðvikudaginn. Þórunn Helga hefur ekkert spilað á mótinu og Katrín spilaði 27 síðustu mínúturnar í fyrsta leiknum á móti Þýskalandi.

„Katrín og Þórunn eru báðar meiddar ennþá og við ætlum að taka stöðuna á þeim aftur á morgun og hinn. Mér finnst ólíklegt að þær spili en það er kannski örlítill möguleiki á að Þórunn spili eitthvað," sagði Sigruður Ragnar Eyjólfsson, kvennalandsliðsþjálfari.

„Þórunn meiddist daginn sem hún átti að koma út að hitta okkur og hélt að þetta væri smávægilegt en þetta var aðeins meira en hún reiknaði með. Katrín meiddist á æfingu hjá okkur þegar hún var að hlaupa á eftir boltanum og teygði sig eitthvað. Hún steig eitthvað vitlaust niður og tognaði á kálfa. Það gerðist eftir Þýskalandsleikinn," sagði Sigurður Ragnar.

„Mér finnst ólíklegt að við tökum áhættu með þær út af meiðslastöðu almennt hjá miðjumönnum liðsins. Það eru svo margar meiddar og ef við myndum spila þeim í síðasta leiknum þá værum við að taka áhættu því þær eru ekki búnar að ná sér hundrað prósent. Það eru samt pínulítið meiri líkur á því að Þórunn verði búin að ná sér heldur en Katrín," sagði Sigurður Ragnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×