Fótbolti

Barcelona vann og Messi jafnaði Ronaldo

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Messi fór illa með liðsmenn Rayo Vallecano í kvöld.
Messi fór illa með liðsmenn Rayo Vallecano í kvöld. Nordic Photos / Getty
Barcelona tók Rayo Vallecano í kennslustund í kvöld en lærisveinar Pep Guardiola unnu 7-0 útisigur. Lionel Messi skoraði tvö marka gestanna og er kominn með 43 mörk í deildinni á tímabilinu, jafnmörg og Cristiano Ronaldo.

Messi kom gestunum yfir eftir stundarfjórðungsleik þegar hann afgreiddi sendingu Pedro auðveldlega í netið af stuttu færi. Um miðjan hálfleikinn skoraði varnarmaður Vallecano sjálfsmark þegar hann reyndi að koma í veg fyrir að skot Alexis Sanchez hafnaði í markinu.

Heimamenn stríddu Barcelona í hálfleiknum án þess að nýta færi sín. Þá stóð Pinto, varamarkvörður Börsunga, vaktina vel í markinu en hann var einn af bestu mönnum vallarins í kvöld.

Argentínumaðurinn snjalli Lionel Messi var enn á ferðinni fimm mínútunum fyrir lok hálfleiksins þegar hann lagði upp mark fyrir Malímanninn Seydou Keita.

Í síðari hálfleik bætti Pedro við marki þegar hann fylgdi á eftir skoti Messi sem hafnaði í þverslánni. Stundarfjórðungi fyrir leikslok bætti Thiago við fimmta markinu með skalla eftir undirbúning Dani Alves. Enn hélt veislan áfram því Pedro skoraði annað mark sitt og Messi sitt 43. mark í deildinni í vetur í uppbótartíma.

Öruggur sigur hjá Barcelona sem er sjö stigum á eftir Real Madrid sem situr í toppsæti deildarinnar. Aðeins þrjár umferðir lifa af deildinni og Madrídingar geta því tryggt sér titilinn með sigri í næstu umferð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×