Fótbolti

Tekur Villas-Boas við Barcelona?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Flestir fjölmiðlar á Spáni og víðar um Evrópu virðast nú á einu máli um að Pep Guardiola muni tilkynna á morgun að hann muni hætta sem knattspyrnustjóri Barcelona í lok leiktíðar.

Boðað hefur verið til blaðamannafundar hjá Barcelona í hádeginu í morgun þar sem greint verður frá ákvörðun Guardiola.

Ritstjóri dagblaðsins Sport í Barcelona sagði í samtali við dönsku sjónvarpsstöðina TV2 í kvöld að þó svo að enginn viti nákvæmlega hvað verði tilkynnt á blaðamannafundinum á morgun séu margir svartsýnir á að Guardiola haldi áfram.

Og hann bendir á að einn þeirra sem hafi áhuga á starfinu sé Portúgalinn Andre Villas-Boas, sem rekinn var frá Chelsea í byrjun mars síðastliðnum.

„Við vitum af því að portúgalskur þjálfari [Villas-Boas] hefur látið vita í gegnum sína fulltrúa að hann hafi mikinn áhuga á þessu starfi," sagði ristjórinn, Juan Manuel Diaz.

„Hann hefur heimsótt æfingasvæði Barcelona að undanförnu og fylgst með liðinu æfa."

Villas-Boas stýrði Chelsea í níu mánuði með misjöfnum árangri en liðið hefur blómstrað eftir að hann var rekinn úr starfinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×