Fótbolti

Rossi spilar ekki aftur fyrr en á næsta ári

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Ítalski sóknarmaðurinn Giuseppe Rossi verður frá næstu tíu mánuðina þar sem hann þarf að gangast undir aðra aðgerð á skömmum tíma vegna krossbandsslita.

Rossi er á mála hjá Villarreal og sleit krossband í annað skiptið á sex mánuðum á æfingu með liðinu þann 13. apríl síðastliðinn.

Rossi þarf reyndar að fara í tvær aðgerðir vegna meiðslanna og fór hann í þá fyrri í Bandaríkjunum á föstudaginn síðastliðinn. Það var tilkynnt á heimasíðu félagsins í dag.

Hann mun gangast undir síðari aðgerðina eftir fjóra mánuði en þetta er talin öruggasta leiðin til að náum fullum bata á nýjan leik.

Rossi ólst upp í Bandaríkjunum til tólf ára aldurs og flutti þá til Parma á Ítalíu. Þar spilaði hann með yngri liðum félagsins þangað til að Manchester United kom auga á hann og fékk hann til liðsins árið 2004, þá sautján ára gamlan.

Rossi lék sinn fyrsta leik með aðalliði United árið 2005 en þeir urðu þó ekki nema fjórtán alls þegar uppi var staðið. Í þeim skoraði hann fjögur mörk. Rossi var svo seldur til Villarreal árið 2007 en þá hafði hann leikið sem lánsmaður hjá bæði Newcastle og Parma.

Hann hefur spilað með öllum yngri landsliðum Ítalíu og einnig 27 leiki með A-landsliði Ítala. Hann hefur skorað í þeim sex mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×