Fótbolti

Real Madrid nálgast 100 stig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / AFP
Sjálfsmark tryggði Real Madrid dramatískan sigur á Granada í næstsíðustu umferð spænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Real Madrid hafði þegar tryggt sér Spánarmeistaratitilinn og hafði því að litlu öðru að keppa í kvöld en að bæta stigametið í deildinni.

Liðið getur orðið það fyrsta í sögunni til að vinna sér 100 stig á einu tímabili en liðið er með 97 stig þegar ein umferð er eftir af tímabilinu. Real mætir Real Mallorca í lokaumferðinni um næstu helgi.

Núverandi met er 99 stig en Barcelona setti það tímabilið 2009-2010.

Gonzalo Jara kom Granada yfir snemma leiks með góðu skoti. Ellefu mínútum fyrir leikslok var svo brotið á Cristiano Ronaldo í teignum. Víti var dæmt og skoraði Ronaldo sjálfur úr því. Það var hans 45. deildarmark á tímabilinu en Lionel Messi, leikmaður Barcelona, hefur skorað 50 deildarmörk þetta tímabilið.

David Cortes varð svo fyrir því óláni að skora sjálfsmark í uppbótartíma þegar hann stýrði fyrirgjöf Karim Benzema í eigið net. Tveir leikmenn Granada misstu stjórn á skapi sínu eftir að leiknum lauk og fengu að líta rauða spjaldið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×