Fótbolti

Margrét Lára á förum frá Turbine Potsdam

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir
Margrét Lára Viðarsdóttir Mynd/Nordic Photos/Getty
Flest bendir til þess að landsliðskonan Margrét Lára Viðarsdóttir sé á leið frá þýska félaginu Turbine Potsdam. Markadrottningin er orðuð við sitt gamla félag Kristianstad í Kristianstadsbladed í dag.

„Það er ekkert launungarmál að við erum í leit að nýjum sóknarmanni og Sofia Jakobsson er á þeim lista," segir Mathias Morack forráðamaður Potsdam liðsins sem heltist á dögunum úr lestinni í Meistaradeild Evrópu.

Morack segir liðið hafa gert allt til þess að aðstoða Margréti Láru í meiðslabaráttu sinni en án árangurs.

„Læknar, sjúkraþjálfarar og sérmeðferð við hennar meinum en ekkert virkar," segir Morack sem segir að málefni Margrétar Láru verði skoðuð að loknu tímabilinu. Tvær umferðir lifa af þýsku deildakeppninni. Potsdam stendur vel að vígi en liðið hefur eins stigs forskot á Wolfsburg á toppi deildarinnar.

Mikael Forsberg, formaður Kristianstad, segir Margréti Láru velkomna tilbaka til Svíþjóðar. Margrét Lára lék með liði Kristianstad á þriðja tímabil en gekk til liðs við Potsdam á síðasta ári.

„Við erum vel meðvituð um stöðu mála hjá henni í Þýskalandi sem virðist alls ekki góð," segir Forsberg.

„Við höfum meiri þolinmæði gagnvart meiðslavandamálum hennar en þeir í Þýskalandi," segir Forsberg og minnir á að Margrét Lára þekki vel til hjá sænska félaginu. Elísabet Gunnarsdóttir þjálfar liðið en auk þess leika með liðinu landsliðskonurnar Guðný Björk Óðinsdóttir, Katrín Ómarsdóttir og Sif Atladóttir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×