Íslenski boltinn

Allar með á æfingu nema Rakel Hönnudóttir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Stefán
Margrét Lára Viðarsdóttir og Katrín Jónsdóttir voru báðar með á æfingu kvennalandsliðsins í dag og það er mikil bjartsýni í íslenska hópnum um að þær geti báðar verið með á móti Norður-Írlandi á morgun í næstsíðasta leik íslenska liðsins í undankeppni EM. Sigur tryggir íslenska liðinu í það minnsta þátttökurétt í umspilsleikjum um sæti í úrslitakeppni EM.

Það er bara Rakel Hönnudóttir sem er ekki að æfa með íslenska liðinu þessa stundina en hún fékk höfuðhögg á dögunum og hefur ekki fengið leyfi læknis að hefja æfingar á nýjan leik. Guðni Kjartansson, aðstoðarþjálfari Sigurðar Ragnars Eyjólfssonar, segir að Rakel geti ekki tekið þátt í leiknum á morgun.

Fjórir leikmenn liðsins hafa verið tæpar því auk Margrétar Láru og Katrínar þá hafa þær Dagný Brynjarsdóttir og Elísa Viðarsdóttir, systir Margrétar Láru, verið að glíma við meiðsli. Það kemur ekki endanlega í ljós fyrr en eftir æfinguna í dag hvort að þessar fjórar verði leikfærar á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×