Fótbolti

Flugeldasýning hjá Messi og Ronaldo í jafnteflisleik

Messi fagnar í kvöld.
Messi fagnar í kvöld.
Tveir bestu knattspyrnumenn heims - Lionel Messi og Cristiano Ronaldo - buðu til veislu á Camp Nou í kvöld er Barcelona tók á móti Real Madrid. Báðir leikmenn skoruðu tvö mörk í 2-2 jafntefli liðanna. Barcelona er því áfram með átta stiga forskot á Real Madrid í deildinni.

Það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn betur því Ronaldo skoraði með glæsilegu skoti í nærhornið úr frekar þröngu færi í teignum. Afar smekklega gert. Hann varð um leið fyrsti maðurinn til þess að skora í sex El Clásico leikjum í röð sem er ekki lítið afrek.

Lionel Messi jafnaði ekki löngu síðar með einföldu marki eftir að Pepe hafði verið í tómu rugli í vörninni. Eftirleikurinn auðveldur fyrir Messi.

Messi kom Barcelona svo yfir í seinni hálfleik með glæsilegu marki beint úr aukaspyrnu. Hans sextánda mark í El Clásico en aðeins Alfredo di Stefano, goðsögn hjá Real Madrid, hefur skorað fleiri en hann skoraði átján mörk á sínum tíma í El Clásico leikjum.

Börsungar voru þó ekki hólpnir því Ronaldo jafnaði eftir að rangstöðuvörn Börsunga hafði klikkað illilega.

Mikil dramatík var undir lokin og til að mynda átti Barcelona skot í slána tveim mínútum fyrir leikslok.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×