Viðskipti erlent

Hagnaður Marks & Spencer dregst saman

Magnús Halldórsson skrifar
Hagnaður Marks & Spencer, stærstu fataverslanakeðju Bretlands, dróst saman um 9,7 prósent á tímabilinu frá mars til september, miðað við sama tímabil í fyrra. Hagnaður fyrirtækisins fyrir skatta nam 290 milljónum punda, eða sem nemur 57,4 milljörðum króna.

Marks & Spencer rekur einnig matvöruverslanir og hefur sá rekstur verið að sýna betri afkomu undanfarin misseri, heldur en fataverslunin, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins BBC um afkomu fyrirtækisins. Tekjur af matvöruverslun jukust um 3,4 prósent en tekjur af fataverslun minnkuðu um 4,3 prósent.

Mark Bolland, forstjóri Marks & Spencer, segir í tilkynningu að þrátt fyrir jákvæð áhrif Ólympíuleikana í London á tíðarandann í Bretlandi, þá hafi þeir ekki skilað sér í meiri sölu í búðum fyrirtækisins. Reksturinn sé þrátt fyrir allt traustur.

Sjá má umfjöllun BBC hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×