Fótbolti

Ronaldo: Ég myndi kjósa sjálfan mig

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Cristiano Ronaldo, leikmaður Real Madrid, er ekki feiminn við að viðurkenna að hann myndi kjósa sjálfan sig í kosningunni um leikmann ársins hjá FIFA.

Ronaldo fær að kjósa sem landsliðsfyrirliði Portúgals en hann má ekki kjósa sjálfan sig.

„Ef ég gæti kosið sjálfan mig myndi ég gera það," sagði hann í samtali við France Football.

„Ég er sá sem ér er og er ánægður með það. Það er ekki gott að vera of hógvær. Í Portúgal er stundum sagt að of mikil hógværð sé hégómafull."

Ronaldo lýsti því yfir í september síðastliðnum að hann væri óánægður hjá Real Madrid og fóru sögusagnir á kreik um að þær tengdust launamálum hans.

„Ég spila vegna þess að ég hef ástríðu fyrir knattspyrnu og elska þau félög sem ég spila fyrir. Ef ég myndi spila fyrir peninga væri ég hjá öðru félagi," sagði hann.

„Allir leikmenn elska að heyra að félög eins og Paris Saint-Germain, Manchester United eða Chelsea séu á höttunum eftir þeim en þannig hugsa ég ekki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×