Körfubolti

Umfjöllun og viðtöl: Snæfell - Grindavík 99-90 | Snæfell og Tindastóll í úrslitum

Óskar Ófeigur Jónsson í Fjárhúsinu skrifar
Ólafur og Stefán Torfasynir voru flottir í kvöld.
Ólafur og Stefán Torfasynir voru flottir í kvöld. Mynd/ÓskarÓ
Snæfellingar tryggðu sér sæti í úrslitaleik Lengjubikarsins á móti Tindastól á morgun eftir níu stiga sigur á Grindavík, 99-90 í undanúrslitaleik í Stykkishólmi í kvöld. Tindastóll komst í úrslitaleikinn með sigri á Þór fyrr í kvöld.

Snæfellingar misstu þá Jón Ólaf Jónsson og Asim McQueen af velli með fimm villur þegar sex mínútur voru eftir en gáfust ekki upp og tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum með mikilli baráttu á lokakaflanum.

Ólafur og Stefán Torfasynir voru allt í öllu hjá Snæfelli á lokakafla leiksins og það væri hægt að telja mörg atviku á báðum endum vallarins þar sem Torfasynir voru að koma sterkir inn.

Það héldu örugglega margir að Grindvíkingar væru að landa sigri þegar stóru mennirnir fóru útaf hjá Snæfelli en Hólmarar ætluðu ekki að missa af úrslitaleik á heimavelli á morgun. Liðið breytti í framhaldinu stöðunni úr 82-85 í 91-85 og eftir það féll allt með baráttuglöðum Hólmurum.

Grindvíkingar skoruðu bara eitt stig á rúmlega þriggja mínútna kafla og voru komnir 13 stigum undir áður en þeim tókst að laga stöðuna í blálokin þegar úrslitin voru ráðin.

Jay Threatt átti frábæran leik með Snæfelli í kvöld en hann endaði með 30 stig, 9 fráköst, 6 stoðsendingar og 6 stolna bolta.



Snæfell-Grindavík 99-90 (22-26, 29-29, 21-20, 27-15)

Snæfell: Jay Threatt 30/9 fráköst/6 stoðsendingar/6 stolnir, Jón Ólafur Jónsson 12/6 fráköst, Ólafur Torfason 11/7 fráköst, Asim McQueen 10/14 fráköst, Sveinn Arnar Davidsson 9/5 fráköst, Stefán Karel Torfason 8, Hafþór Ingi Gunnarsson 8/5 stoðsendingar, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 7, Sigurður Á. Þorvaldsson 4.

Grindavík: Aaron Broussard 22/14 fráköst, Samuel Zeglinski 21/9 fráköst/8 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 18/11 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 18/4 fráköst, Ómar Örn Sævarsson 6/8 fráköst, Þorleifur Ólafsson 5.





Ólafur Torfa: Bikarinn fer ekki neittÓlafur Torfason átti flottan leik með Snæfelli í kvöld ekki síst í lokin þegar liðið var búið að missa tvo lykilmenn af velli með fimm villur. Hann var líka kátur í leikslok.

"Djöfull var þetta gaman," var það fyrsta sem kom upp úr kappanum eftir leik. "Við erum með breiðan og sterkan hóp og það getur hver sem er stigið upp. Nonni og Asim fóru útaf en þá þurftu þá einhverjir aðrir að stíga fram," sagði Ólafur sem var með 11 stig og 7 fráköst í leiknum.

"Okkur langaði heldur betur í úrslitaleikinn enda er gamann að gera þetta á heimavelli," sagði Ólafur en Snæfell byrjaði leikinn ekki vel.

"Þetta er búið að vera svona hjá okkur í vetur. Við höfum verið upp og niður í leikjum en alltaf náð að klára þá. Það sýnir bara gríðarlegan karakter sem býr í þessu liði. Á svona degi og hvaða degi sem er þá getum við unnið hvaða lið sem er," sagði Ólafur.

"Maður verður bara að gera það sem maður getur sem er að fara eftir fráköstunum og sýna baráttu. Það er eitthvað sem maður hefur alltaf gert og það þarf engan hæfileika í það," sagði Ólafur hógvær um þátt sinn í lokakaflanum.

"Nú er flottur leikur á morgun og þetta verður gaman," sagði Ólafur og horfði í áttina að bikarnum sem var á hliðarlínunni. "Bikarinn fer ekki neitt," sagði Ólafur hlæjandi.



Jóhann Árni: Áttum að gera töluvert betur sóknarlega á síðustu mínútunumJóhann Árni Ólafsson skoraði 10 af 18 stigum sínum á upphafsmínútum leiksins en var að vonum svekktur í leikslok eftir að Grindavíkurliðinu tókst ekki að landa sigrinum. Grindavíkurliðið gaf mikið eftir í lokin.

"Mér fannst við vera í hörku leik en við vorum óheppnir að fá ekki dóma á lokakaflanum sem við hefðum viljað fá. Ég er viss um það þeir hafi viljað fá dóma hinum megin líka. Við eigum samt að fá tvö víti en þeir fá boltann og fara yfir og skora. Við þurftum því að fara að brjóta í endann. Mér fannst það vera leikurinn. Ég vil ekki kenna dómurunum um en þetta voru rosalega stórir dómar sem þeir voru að sleppa," sagði Jóhann Árni svekktur.

Snæfell missir tvo lykilmenn af velli en Grindavíkurliðið nær ekki að nýta sér það.

"Leikurinn snýst í þeirra hag sem er mjög bjánalegt. Ég hélt að við værum komnir með smá yfirtök í leiknum þegar þeir missa Nonna og kannan útaf. Ég hélt að við myndum eiga teiginn en við fórum í eitthvað allt annað. Það er sorglegt að hugsa til þess að við skyldum ekki hafa klárað þennan leik með þá útaf í sjö mínútur," sagði Jóhann Árni.

"Við spilum ekki góða vörn og þeir skora næstum því þegar þeir vilja. Við vorum að skiptast á körfum við þá og þú vinnur ekkert Snæfell með því að skiptast á körfum. Mér fannst við samt eiga að gera töluvert betur sóknarlega á síðustu mínútunum sérstaklega þar sem að þeir eru með stóru mennina sína útaf. Við áttum að koma boltanum inn á Sigga og Aaron og klára þetta þar en við gerðum það alls ekki," sagði Jóhann Árni.





Ingi Þór: Ég held að Nonni hafi fengið nokkur grá hár í viðbótIngi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, var ánægður en raddlítill eftir sigurinn á Grindavík í kvöld en Snæfellingar sýndu mikinn styrk á síðustu sex mínútunum eftir að hafa misst þá Jón Ólaf Jónsson og Asim McQueen af velli með fimm villur.

"Við erum með þéttan hóp og sýndum það í kvöld. Við spiluðum á níu mönnum og ég er mjög ánægður með frammistöðu margra leikmanna. Það er kannski erfitt að taka út einhverja leikmenn en mér fannst Torfson-bræðurnir koma alveg gríðarlega flottir inn. Svenni var flottur og Jay var að spila sinn langbesta leik sérstaklega varnarlega," sagði Ingi Þór.

"Við trúðum á þetta allan tímann. Bæði liðin voru samt óánægð í hálfleik því þetta var alltof hátt stigaskor," sagði Ingi Þór en Grindavík var 55-51 yfir í hálfleik.

"Við kláruðum þetta án Nonna og Asim af því að við trúðum á þetta allan tímann. Menn komu inn til að spila og voru hungraðir í það að fá tækifærið. Menn nýttu sér tækifærið mjög vel," sagði Ingi og Snæfell fær nú úrslitaleikinn á heimavelli.

"Það er búið að verðlauna stjórnarmenn og stjórnendur klúbbsins með að úrslitin séu hér og það hefði verið mjög svekkjandi fyrir alla að sitja hérna upp í stúku og horfa á úrslitaleikinn," sagði Ingi Þór.

Jón Ólafur Jónsson fékk fimmtu villuna sína þegar rúmar sex mínútur voru eftir. "Ég held að Nonni hafi fengið nokkur grá hár í viðbót og það hafi þynnst aðeins í kollvikunum hjá honum," sagði Ingi Þór um það að Jón Ólafur þurfti að horfa á síðustu sex mínútur leiksins af bekknum.

"Mér fannst hann ekki fá sanngjarna meðferð en hann mætir bara ferskur á morgun enda varla þreyttur eftir þennan leik," sagði Ingi Þór léttur.

Snæfell mætir Tindastól í úrslitaleiknum á morgun. "Við þurfum að taka vel á því á morgun. Tindastóll er með hörkulið og það er óskiljanlegt að þeir skuli vera 0-6 í deildinni. Þetta er flott lið. Við erum nýbúnir að spila við þá í hörkuleik þar sem við rétt komust yfir í lokin. Við þurfum að gera betur á morgun en við gerðum þá. Þeir eru hungraðir og sýndu það sínum leik í kvöld," sagði Ingi Þór.

Hér fyrir neðan má sjá textalýsingu frá leiknum.Leik lokið, 99-90: Snæfellingar misstu tvo lykilmenn af velli með fimm villur en gáfust ekki upp og tryggðu sér baráttusigur og sæti í úrslitaleiknum.

40. mínúta, 95-86: Ólafur Torfason nær í rosa mikilvægt sóknarfrákast og fær tvö víti þegar 43,5 sekúndur eru eftir. Hann fær jafnframt fimmtu villuna á Ómar Sævarsson. Hann setur bæði vítin niður.

40. mínúta, 93-86: Sigurður Gunnar Þorsteinsson fær tvö víti og setur seinna niður. Hafþór Ingi Gunnarsson skorar hraðaupphlaupskörfu og Snæfell er sjö stigum yfir.

38. mínúta, 91-85: Jay Threatt setur niður tvö víti og kemur Snæfelli sex stigum yfir þegar 2:08 eru eftir.

38. mínúta, 89-85: Ólafur Torfason er að spila vel og fiskar ruðning Samuel Zeglinski sem er kominn með fjórar villur og þarf að passa sig. Sveinn Arnar Davíðsson fer á vítalínuna og kemur Snæfelli fjórum stigum yfir.

37. mínúta, 88-85: Jay Threatt skorar úr báðum vítunum og er kominn með 26 stig í leiknum. Það er mikil barátta í Snæfellsliðinu þessar mínúturnar.

37. mínúta, 86-85: Jay Threatt fær fimmtu villuna á Þorleif Ólafsson eftir að hafa skömmu áður varið skot frá Samuel Zeglinski. Hann getur komið Snæfelli þremur stigum yfir en Sverrir Þór ákveður að taka leikhlé.

36. mínúta, 84-83: Snæfellingar hætta ekkert og Ólafur Torfason skorar eftir laglega sendingu frá bróður sínum Stefáni.

35. mínúta, 80-81: Jón Ólafur Jónsson fær á sig enn eina sóknarvilluna og þarf að yfirgefa völlinn með fimm villur. Asim McQueen fær á ruðning í næstu sókn og er líka kominn með fimm villur. Þetta er vatn á myllu Grindvíkinga.

34. mínúta, 78-79: Liðin skiptast nú á að taka forystuna og allt er galopið í þessum spennandi leik.

32. mínúta, 76-77: Asim McQueen fær boltann undir körfunni og kemur Snæfelli yfir í 76-75. Ómar Sævarsson fær tvö víti hinum megin og nýtir þau bæði.

31. mínúta, 74-75: Snæfellingurinn Pálmi Freyr Sigurgeirsson byrjar fjórða leikhlutann á því að komast á vítalínuna og minnka muninn í eitt stig.

Þriðji leikhluti búinn, 72-75: Ómar Sævarsson skorar lokakörfu leikhlutans þegar hann blakar boltanum ofan í körfuna eftir að hafa náð sóknarfrákasti. Grindvíkingar eru þremur stigum yfir en það stefnir í æsispennnandi lokaleikhluta.

28. mínúta, 70-71: Einar Þór Skarphéðinsson dómari er búinn að fá nóg af mótmælum Inga Þórs Steinþórssonar og gefur honum tæknivíti. Grindavík nýtir sér þetta, skorar fimm stig í sókninni og kemst aftur yfir.

28. mínúta, 70-66: Snæfell er komið með frumkvæðið í leiknum. Bræðurnir Stefán og Ólafur Torfasynir skora í tveimur sóknum í röð og Hólmarar eru fjórum stigum yfir.

26. mínúta, 66-63: Hafþór Ingi Gunnarsson sækir þriðju villuna á Þorleif Ólafsson og jafnar leikinn með því að hitti úr öðru víta sinna. Snæfell nær aftur boltanum og Hafþór Ingi setur niður þrist og kemur Snæfelli þremur stigum yfir.

23. mínúta, 60-61: Jay Threatt er búinn að skora sex stig á fyrstu þremur mínútum seinni hálfleiksins og minnkar muninn í eitt stig með þriggja stiga körfu. Jón Ólafur Jónsson fær á sig sóknarvillu og er komin með þrjár villur sem eru ekki góðar fráttir fyrir Snæfellinga.

22. mínúta, 57-59: Grindavík skorar fjögur fyrstu stig seinni hálfleiks en Snæfell svarar og minnkar muninn niður í tvö stig. Grindavík er samt áfram skrefinu á undan.

Hálfleikur, 51-55: Aaron Broussard endar hálfleikinn á góðri körfu inn í teig og Grindavíkurliðið er því fjórum stigum yfir í hálfleik. Grindvíkingar hafa verið skrefinu á undan allan hálfleikinn og eru að fá stiga frá mörgum stöðum. Fjórir leikmenn liðsins komnir með 12 stig eða meira. Aaron Broussard er stigahæstur með 14 stig og 9 fráköst en hjá Snæfelli er Jay Threatt stigahæstur með 16 stig. Grindvíkingar eru búnir að hitta úr 8 af 13 þriggja stiga skotum sínum í fyrri hálfleiknum.

19. mínúta, 49-53: Samuel Zeglinski setur niður tvo þrista með stuttu millibili og kemur Grindavík fjórum stigum yfir.

18. mínúta, 42-45: Aaron Broussard setur niður þrist og kemur Grindavík þremur stigum yfir en staðan var þá búin að vera 42-42 í nokkuð langan tíma.

16. mínúta, 39-40: Sigurður Gunnar Þorsteinsson er öflugur undir körfunni hjá Grindavík og skorar aftur körfu og fær víti að auki sem hann nýtir. Sigurður Gunnar er kominn með 10 stig.

15. mínúta, 36-35: Jay Threatt setur niður tvö víti og kemur Snæfelli fjórum stigum yfir en Sigurður Gunnar Þorsteinsson svarar með körfu og víti að auki sem hann nýtir.

14. mínúta, 34-32: Snæfellingar komast yfir í fyrsta sinn í kvöld og Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur ákveður að taka leikhlé. Snæfell er búið að vinna síðustu fimm mínútur leiksins 17-6.

13. mínúta, 32-32: Snæfellingar eru búnir að vinna sig inn í leikinn eftir slæma byrjun og Asim McQueen jafnaði metin eftir laglegt sóknarfrákast.

11. mínúta, 22-29: Samuel Zeglinski byrjar annan leikhlutann á því að setja niður þrist og koma Grindavík aftur sjö stigum yfir. Fyrstu stig hans í leiknum en hann skoraði 37 stig á Snæfell á dögunum.

Fyrsti leikhluti búinn, 22-26: Jay Threatt hjá Snæfelli skorar fimm síðustu stig leikhlutans og því munar aðeins fjórum stigum á liðunum eftir fyrstu tíu mínúturnar. Threatt er kominn með tíu stig í kvöld.

10. mínúta, 17-24: Sigurður Þorvaldsson skorar sín fyrstu stig í kvöld og minnka muninn í sjö stig.

9. mínúta, 15-23: Grindvíkingar eru duglegir í sóknarfráköstunum og það er að skila þeim mikið af stigum í upphafi leiks.

8. mínúta, 10-21: Grindvíkingar smella niður fimm stigum í röð og eru aftur komnir með örugga forystu. Það er mikil ógnun í öllum stöðum hjá Grindavík í upphafi leiks.

7. mínúta, 10-16: Sigurður Þorvaldsson kemur inn á völlinn hjá Snæfelli en þetta er fyrsti leikur hans á tímabilinu.

6. mínúta, 10-16: Jón Ólafur Jónsson kemst á blað og minnkar muninn í sex stig. Snæfellingar eru aðeins að vakna í leiknum.

5. mínúta, 2-14: Jóhann Árni Ólafsson hefur farið á kostum í upphafi leiks. Hann er búinn að skora 10 af 14 stigum Grindvíkinga sem eru strax komnir tólf stigum yfir.

1. mínúta, 0-2: Jóhann Árni Ólafsson skorar fyrstu körfu leiksins eftir að hafa tekið tvö sóknarfráköst í fyrstu sókn Grindvíkinga í leiknum.

Fyrir leik: Grindvíkingar unnu Lengjubikarinn í fyrra eftir 75-74 sigur á Keflavík í úrslitaleiknum. Grindavík á nú möguleika á því að vinna þessa keppni í þriðja sinn á fjórum árum.

Fyrir leik: Snæfell er komið í undanúrslit Fyrirtækjabikarsins sjötta árið í röð en liðið tapaði á móti Keflavík í undanúrslitunum í fyrra. Snæfell vann þessa keppni hinsvegar tímabilið á undan en þá unnu Hólmarar einmitt Grindavík í undaúrslitunum.

Fyrir leik: Grindavík vann 110-102 sigur á Snæfelli þegar liðin mættust í deildinni í október. Samuel Zeglinski var með 37 stig og 8 stoðsendingar í þeim leik og Grindvíkingar settu niður fimmtán þriggja stiga körfur.

Fyrir leik: Það má búast við þriggja stiga sýningu í kvöld því liðin skoruðu saman 27 þrista þegar þau mættust í Dominos-deildinni á dögunum. Grindvíkinar nýttu þá 15 af 33 langskotum sínum (45 prósent) en Snæfell setti niður 12 af 32 þriggja stiga körfum sínum (38 prósent).

Fyrir leik: Aðeins sinni áður hefur lið verið á heimavelli í lokaúrslitum Fyrirtækjabikarsins en Keflvíkingar nýttu heimavelli vel árið 2002 og tryggðu sér titilinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×