Skoðun

Um smálán

Árni Páll Árnason skrifar
Allt frá því að smálánafyrirtæki hófu innreið sína á íslenskan lánamarkað höfum við leitað leiða til að koma böndum á starfsemi þeirra og skapa henni eðlileg mörk. Í fyrra lagði ég fram frumvarp þess efnis, sem dagaði uppi á Alþingi. Þá hófst í efnahags- og viðskiptaráðuneytinu undirbúningur að því að regla starfsemi smálánafyrirtækjanna innan ramma nýrra laga um neytendalán, eins og nú er lagt til í nýju frumvarpi.

Það er mikilvægt að muna hvers vegna ástæða er til að setja hömlur á umsvif smálánafyrirtækja. Lærdómur okkar af nýafstöðnu hruni og útlánabólu í aðdraganda þess á að vera sá að við krefjum fjármálafyrirtæki um ábyrga viðskiptahætti. Við viljum ekki að fólk sé hvatt til ofskuldsetningar. Við viljum að lán séu einungis veitt þeim sem gerir sér glögga grein fyrir ábyrgðinni sem í lántökunni felst og að vaxtakjör og skilmálar séu öllum ljósir. Við vitum nefnilega af fenginni reynslu að lán getur verið bölvað ólán.

Smálánafyrirtækin gera ekkert af þessu. Þau lána ekki til verðmætamyndunar, heldur til að bjarga neysluþörf fyrir horn. Lánað er til stutts tíma með gríðarlegum okurvöxtum. Ekki er kannaður bakgrunnur lántaka og í auglýsingum er lögð áhersla á einfaldleika og tafarlausa afgreiðslu allan sólarhringinn. Beint er þannig höfðað til þeirra sem ekki hafa forsendur til að meta afleiðingar lántökunnar og til þeirra sem eru orðnir uppiskroppa með skotsilfur á öldurhúsi um miðja nótt. Hámarksupphæð sem veitt er að láni í hvert skipti er svo lág að allar líkur eru á að foreldrar og aðstandendur hlaupi undir bagga með skuldurum, ef þeir eru ekki í færum til að standa skil á okurvöxtunum. Þannig getur svikamyllan haldið áfram.

Nú reynir á að Alþingi stemmi þessa á að ósi.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×