Skoðun

Hvers vegna að vanda sig þegar hægt er að gera hlutina illa?

Orri Vésteinsson skrifar
Allsherjar- og menntamálanefnd hefur afgreitt til annarrar umræðu með einróma nefndaráliti frumvarp til laga um menningarminjar. Þetta er eitt af þessum litlu málum sem komast ekki í fréttir og fáir láta sig varða, eitt af tugum frumvarpa sem verða afgreidd með hraði og án mikillar, ef nokkurrar, umræðu á síðustu dögum þingsins.

Slíkt vinnulag ætti ekki að þurfa að vera vandamál því flest mál sem liggja fyrir Alþingi eru ekki þannig vaxin að þau varði andstæða hagsmuni eða hugmyndafræði. Mál eins og þetta snúast fremur um einstaka hluta af gangverki samfélagsins þar sem einu hagsmunirnir eru fyrst og fremst að gangverkið virki, gangi eins smurt og kostur er. Um slík mál á að vera hægt að ná sátt. Það er ekki bara einhver væmni að biðja um það því sáttin er forsenda virkninnar. Án hennar hætta hlutirnir að virka eins og þeir eiga að gera. Þess vegna skyldi maður ætla að það væri ástæðulaust að taka neina áhættu með þetta nema brýna nauðsyn bæri til. En saga frumvarpsins um menningarminjar, sannarlega eins af minnstu og saklausustu kimum gangverksins, sýnir að hvorki sátt né skilvirkni eru efst í huga þeirra sem um það véla.

Frumvarpið, sem varð til í launhelgum menntamálaráðuneytisins án þess að við sem vinnum með íslenskar menningarminjar hefðum af því mikinn pata, var fyrst lagt fram á síðasta þingi. Fjölmargir aðilar sendu inn á annað hundrað athugasemdir, mjög margar um sömu atriðin með tillögur í sama dúr. Frumvarpið dagaði uppi í menntamálanefnd en var lagt fram aftur á yfirstandandi þingi efnislega óbreytt. Það kom okkur sem höfðum sent inn athugasemdir á óvart að ráðherra skyldi ekki nýta sér að neinu leyti þær fjölmörgu athugasemdir sem bárust, sérstaklega af því að þær vörðuðu flestar tæknileg og fagleg mál fremur en stefnu eða stjórnskipulag.

Við ákváðum því að breyta um aðferð og úr varð sameiginleg umsögn beggja fagfélaga fornleifafræðinga, Fornleifaverndar ríkisins, Húsafriðunarnefndar, íslensku ICOMOS nefndarinnar og námsbrautar í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Þessi félög og stofnanir, sem endurspegla svo gott sem alla sem vinna að þessum málaflokki á Íslandi, komust að sameiginlegri niðurstöðu um tillögur að víðtækum breytingum á frumvarpinu. 16 aðrar umsagnir bárust með athugasemdum sem, eins og í fyrra skiptið, hníga að stórum hluta að sömu atriðum með áþekkum tillögum til úrbóta.

Það er skemmst frá því að segja að allsherjar- og menntamálanefnd tók ekki mark á einni einustu athugasemd. Í tillögu nefndarinnar eru aðeins orðalagsbreytingar sem litlu muna. Ég átti ekki von á að allar okkar góðu hugmyndir hlytu hljómgrunn, en ég hafði hins vegar ekki hugmyndaflug til sjá fyrir hvernig væri hægt að hunsa fullkomlega og algerlega allt sem allt fagfólk á þessu sviði hafði um málið að segja, alla þeirra reynslu og þekkingu og allar þeirra góðu ábendingar og hugmyndir.

Ég skil það ekki enn og ég skil ekki heldur tilganginn, því þetta er sama fólkið og á að starfa eftir þessum lögum og vinna málefninu brautargengi. Hvaða tilgangi það þjónar að sýna því slíka fyrirlitningu, ofan á að ætla að samþykkja meingallað frumvarp sem getur ekki leitt til annars en vandræða og úlfúðar, er ofar mínum skilningi.

Þetta er hins vegar auðvelt að laga. Í þessu máli er lítill efnislegur ágreiningur og ekkert sem ekki er hægt að ná samstöðu um ef fólk nennir að tala saman. Ég hvet Alþingi til að vísa frumvarpi til laga um menningarminjar aftur til nefndar og nefndina til að reyna í alvöru að búa til lagatexta sem hægt verður að vinna eftir og eflir þennan málaflokk fremur en að draga úr honum mátt.




Skoðun

Sjá meira


×