Skoðun

Klók leið ríkisstjórnarinnar til að skapa störf í kreppunni

Össur Skarphéðinsson skrifar
Eitt allra snjallasta ráðið sem ríkisstjórnin brá á til að skapa störf í hápunkti kreppunnar þegar atvinnuleysið var sem hæst var ákvörðun um að endurgreiða 100% virðisaukaskatt af vinnu við viðhald bygginga einstaklinga, bæði íbúðarhúsnæðis og sumarhúsa, og af opinberum byggingum.

Hátt á annað þúsund ársverk urðu til vegna þessarar djörfu ákvörðunar sem ríkisstjórnin tók mjög snemma á ferli sínum – eftir að Sjálfstæðisflokkurinn hvarf úr stjórninni. Hundruð atvinnulausra iðnaðarmanna fengu vinnu, smiðir, rafvirkjar, pípulagningamenn, múrarar og fleiri. Ekki má gleyma verkfræðistofum sem fengu verkefni við að gera úttektir á viðhaldsþörf, hanna verk og meta, og loks hafa umsjón með framkvæmdum.

Um alla Reykjavík og allt landið ruku upp stillansar. Húseigendur og húsfélög sem höfðu látið viðhald sitja á hakanum, tóku tilboði ríkisstjórnarinnar um 100 prósenta endurgreiðsluna, og fengu iðnaðarmenn, verktakafyrirtæki og verkfræðistofur til að standa fyrir endurbótum á stórum blokkum. Sama gerðu sveitarfélög sem höfðu beðið með viðhald á eignum sínum.

Fyrir marga einyrkja og lítil fyrirtæki skipti ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að endurgreiða 100 prósenta virðisaukaskattinn algerum sköpum.

Ríkisstjórnin, sem Sjálfstæðisflokkurinn skammar fyrir að hækka skatta á hátekjufólk, lækkaði þvert á móti skatta til að skapa störf fyrir atvinnulaust fólk.

Þetta gerðist ekki meðan Sjálfstæðisflokkurinn var við völdin – heldur eftir að hann fór úr ríkisstjórn.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×