Íslenski boltinn

Lærið í lagi en ökklinn teygður hjá Katrínu fyrirliða

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Jónsdóttir er bjartsýn á að geta verið með.
Katrín Jónsdóttir er bjartsýn á að geta verið með. Mynd/Stefán
Katrín Jónsdóttir, fyrirliði íslenska kvennalands-liðsins, er bjartsýn á að geta tekið þátt í afar mikilvægum landsleikjum á móti Norður-Írlandi og Noregi í undankeppni EM. Katrín æfði ekki með liðinu í gær en það var þó vegna annarra meiðsla en ógnuðu þátttöku hennar í lokaleikjum undankeppninnar.

„Staðan er alveg ágæt. Ég er búin að vera æfa fótbolta í tvær vikur og það hefur verið mjög hraður bati á lærinu síðustu vikuna. Ég var með á æfingu í gær þar sem lærið háði mér ekki neitt en ég náði aðeins að togna á hægri ökkla. Ég held að það hafi verið algjör óheppni og þetta er ekki alvarlegt. Ég ákvað í samráði við Sigga að hvíla í dag en ég hefði alveg verið til í að „teipa" ökklann og vera með," sagði Katrín.

Hún missti af sínum fyrsta landsleik í tæp sex ár í byrjun ágúst. „Það var ömurlegt að missa af Skotaleiknum og ég var lengi að pirra mig á því. Þetta er samt bara í annað skiptið sem ég missi af landsleik út af meiðslum og ég get ekki kvartað," segir Katrín. Íslenska liðið á mjög góða möguleika á að komast inn á annað Evrópumótið í röð og tryggir sér að minnsta kosti sæti í umspili með sigri á Norður-Írlandi á morgun.

„Þessi leikir skipta miklu meira máli en ég og þá sérstaklega fyrri leikurinn á móti Norður-Írlandi. Það eru allir með fulla einbeitingu á honum. Ef við vinnum þann leik þá erum við búnar að tryggja okkur umspilsleik í október og það er því mjög mikilvægt að ná þremur stigum út úr þeim leik," sagði Katrín.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×