Skoðun

Fjármál sveitarfélaga

Halldór Halldórsson skrifar
Árlega stendur Samband íslenskra sveitarfélaga fyrir Fjármálaráðstefnu þar sem stjórnendur sveitarfélaga, bæði embættismenn og kjörnir fulltrúar, koma saman og ræða með faglegum hætti rekstrarmál sveitarfélaganna.

Ráðstefnan er haldin fyrr að haustinu en áður var vegna þess að fjárhagsáætlanir sveitarfélaga eru unnar og samþykktar fyrr og fjárlög ríkisins eru lögð fram fyrr en venjan var. Að þessu sinni verður Fjármálaráðstefnan í Hörpu 27. og 28. september nk.

Að venju verður umræða um samskipti stjórnsýslustiganna tveggja, ríkis og sveitarfélaga. Við hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga höfum lýst yfir ánægju með mikil samskipti við ríkisvaldið en því miður hafa þau samskipti ekki alltaf leitt til þeirrar niðurstöðu sem við teldum æskilegasta. Þá vilja samskiptin gleymast af og til ríkismegin við borðið og gætir þess verulega núna við framlagningu fjárlaga fyrir árið 2013.

Þrátt fyrir umræðu um erfiðleika í rekstri sveitarfélaga og oft á tíðum miklar upphrópanir í þeirri umræðu þá er ljóst að reksturinn hefur batnað jafnt og þétt frá efnahagshruninu haustið 2008. Ársreikningar sveitarfélaga fyrir árið 2011 eru teknir saman í Árbók sveitarfélaga sem kemur út á Fjármálaráðstefnunni. Samanburður á milli ára sýnir aukningu veltufjár frá rekstri og lækkun skulda og skuldbindinga í hlutfalli við tekjur.

Eins og mörgum er kunnugt hefur það markmið verið sett að skuldir sveitarfélaga eigi að vera innan við 150% af tekjum þeirra. Sveitarfélögin hafa tíu ár til að ná þessu markmiði nýrra sveitarstjórnarlaga. Þegar allir sveitarsjóðir landsins (A hluti) eru teknir saman er ljóst að skuldir og skuldbindingar eru 135% af tekjum eða innan við þetta markmið. Sama gildir ekki um fyrirtæki sveitarfélaga (B hluti) en þar eru skuldir og skuldbindingar 231% af tekjum. Þarna vega þyngst miklar skuldir Orkuveitu Reykjavíkur.

Það eru staðbundin vandamál hjá ákveðnum sveitarfélögum þó mörg þeirra hafi náð töluverðum árangri í sínum rekstri. Það er ánægjulegt og traustvekjandi að sjá að sveitarsjóðir landsins í heild standa alveg þokkalega og áreiðanlega mun betur en almenningur gæti haldið miðað við umræðuna. Þess ber jafnframt að geta að sveitarfélögin færa allar sínar skuldir og skuldbindingar í ársreikninga. Nokkuð sem ríkissjóður gæti lært af sveitarfélögum.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×