Fótbolti

Vilanova stýrir Barcelona-liðinu á morgun

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Tito Vilanova.
Tito Vilanova. Mynd/Nordic Photos/Getty
Tito Vilanova er mættur aftur til starfa hjá Barcelona aðeins tveimur vikum eftir að hann gekkst undir krabbameinsaðgerð og mun því stýra liðinu í nágrannaslagnum á móti Espanyol á morgun.

Vilanova þurfti að fara í aðgerð til að fjarlægja æxli í munnvatnskirtli en hann hafði einnig farið í samskonar aðgerð í nóvember 2011. Það bjuggust ekki margir við því að hann kæmi svona fljótt til baka.

„Tito verður á bekknum," staðfesti aðstoðarþjálfarinn Jordi Roura. „Hann á enn eftir að fara í gegnum meðferðina en þetta gengur vel hjá honum. Hann er kraftmikill og jákvæður og það skiptir mestu máli," sagði Roura.

Tito Vilanova er 44 ára gamall en hann mætti fyrst á æfingu á miðvikudaginn var. Áætlunin hljóðaði upp á að hann kæmi aftur um miðjan janúarmánuð en hann þarf að gangast undir sex vikna lyfja- og geislameðferð sem hann mun koma fyrir meðfram því að þjálfa Barca-liðið sem hefur spilað frábærlega undir hans stjórn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×