Handbolti

Alfreð: Of gott tækifæri til að sleppa því

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Örn Finnsson.
Alfreð Örn Finnsson. Mynd/Pjetur
Alfreð Örn Finnsson var í gær ráðinn þjálfari norska úrvalsdeildarfélagsins Storhamar en félagið þykir eitt það besta í Noregi.

Norska úrvalsdeildin er ein sú sterkasta í heimi en til marks um það hefur norska landsliðið náð frábærum árangri í gegnum tíðina og er ríkjandi heims- og Ólympíumeistari.

Alfreð kom til Noregs fyrir tveimur árum síðan og tók þá við Volda sem leikur í C-deildinni. Liðið var við fall þá en hann var nálægt því að fara upp með liðið í fyrra og liðið hefur nú unnið alla 22 leiki sína í deildinni til þessa.

Við tekur umspil í vor um þrjú laus sæti í norsku B-deildinni og stefnir Alfreð að því að kveðja liðið með því að koma því upp um deild. Svo flytur hann um set og tekur við Storhamer, sem er nú í fimmta sæti norsku úrvalsdeildarinnar.

„Ég er mjög ánægður með að það skuli hafa verið leitað til mín," sagði Alfreð í samtali við Vísi. „Það kom mér á óvart, enda virðist svona lagað gerast þegar maður er ekkert að velta þeim fyrir sér."

Hann segir að viðræður hafi ekki tekið langan tíma en Alfreð var frjálst að semja við Storhamer þar sem að samningur hans við Volda rennur út í sumar. „Það tók ekki langan tíma. Ég var stressaður í upphafi því venjulega eru þessi lið að tala við 2-3 þjálfara í einu. Ég var því ekki að gera mér of miklar væntingar. En svo kom fljótlega í ljós að þeir vildu fá mig og þá var gengið í þetta."

Alfreð býr ytra með Evu Björk Hlöðversdóttur og eiga þau saman tvö börn. Eva Björk lék lengi vel undir stjórn Alfreðs, bæði með ÍBV og Gróttu á sínum tíma. Hún hefur einnig spilað með Volda ytra, þar sem liðinu hefur gengið mjög vel eins og fyrr segir.

„Ég hafði alltaf stefnt að þessu og þetta var góður stökkpallur fyrir mig. Gengi liðsins hefur hjálpað mikið til og þá eru margir Íslendingar að gera það gott í þjálfun sem kemur orðsporinu áfram."

Hann segir þó ekki fullkomna sátt ríkja um brottför hans en stjórnarmenn Volda urðu fyrir vonbrigðum er Alfreð ákvað að taka tilboði Storhamar. „Ég hef alla tíð komið heiðarlega fram og þrátt fyrir að það séu einhver læti í kringum þetta núna vona ég að þetta leysist farsællega og að ég fái tækifæri til að klára verkefni vetrarins."

Alfreð segir sér og fjölskyldu sinni líði mjög vel í Volda. „Þetta var ekki auðveld ákvörðun því við höfum það mjög gott. En þetta var of gott tækifæri til að hafna því."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×