Handbolti

Nincevic segir refsinguna hlægilega

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

„Bannið er hlægilegt! Það ætti að breyta þessari reglu,“ sagði Króatinn Ivan Nincevic, leikmaður Füchse Berlin, sem slasaðist illa þegar hann var skallaður í leik gegn Hamburg á dögunum.

Torsten Jansen, leikmaður Hamburg, skallaði Nincevic þegar lítið var eftir af leiknum sem Hamburg vann. Nincevic fékk 5 sentímetra skurð undir hægra augað, heilahristing auk þess sem kinnbeinið marðist illa.

Jansen var í gær dæmdur í tíu leikja bann og sektaður um fimmtán þúsund evrur, 2,4 milljónir króna. Bannið gildir þó aðeins í tvo mánuði og Jansen missir því aðeins af síðustu tveimur deildarleikjum Hamburg á þessu tímabili.

„Refsingin er of væg en svona eru reglurnar. En það er ljóst að andlitið mitt er meira en fimmtán þúsund evra virði,“ bætti Nincevic við. „Ef hann hefði hæft mig aðeins ofar í andlitinu hefði þetta getað orðið mun verra.“

„Fyrst þetta var refsingin fyrir þessu broti er ljóst að samkvæmt núverandi reglum geta leikmenn brotið af sér að vild í síðustu umferðunum, án þess í raun að hafa miklar áhyggjur af refsingunni.“

Nincevic getur farið með málið fyrir almenna dómstóla. „Ég og eiginkona mín munum ákveða framhaldið í næstu viku.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×