Handbolti

Þær eru örugglega ósáttar við bíkinimyndirnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stelpur sem fjallað hefur verið um  á Fimmeinn.is.
Stelpur sem fjallað hefur verið um á Fimmeinn.is. Mynd/Samsett

„Það er oftast mjög mikil umferð á þriðjudögum. Það er eiginlega útaf nýja liðnum okkar," segir Arnar Gauti Grettisson einn af eigendum vefsíðunnar Fimmeinn.is.

Umfjöllun síðunnar um kærustur og konur íslenskra handboltamanna hefur vakið töluverða athygli. Arnar Gauti, sem rekur síðuna og á ásamt þremur vinum sínum, segir þá félaga velja kvenfólkið eftir ábendingum utan úr bæ.

„Við fáum sendar ábendingar í tölvupósti um konur og kærustur. Þetta er oftast fólk sem er að grínast í vinum sínum," segir Arnar Gauti. Þeir félagar hafi svo uppi á lykilupplýsingum um viðkomandi og myndum.

Aðspurður hvort þeir leiti leyfis hjá viðkomandi áður en um þá sé fjallað og myndir birtar segir Arnar Gauti:

„Við spurðum Dröfn (Haraldsdóttur) um daginn hvort það væri ekki í lagi að birta þetta. En við höfum reyndar ekki talað við hinar stelpurnar," segir Arnar Gauti. Hann segir aðeins einu sinni, frá því liðurinn hóf göngu sína fyrir mánuði, hafa fengið símtal frá ósáttri kærustu.

„Hún var ekki sátt við að það væri mynd af henni í bíkini. Við tókum myndina út að hennar ósk," segir Arnar Gauti. En telur hann að stelpurnar myndu gefa leyfi á umfjöllun og birtingu myndanna ef þeir hefðu samband við þær?

„Ég veit það nú ekki. Þeim er örugglega ekki sama. Þær myndu kannski leyfa þetta en eru örugglega ekki sáttar við bíkinimyndirnar sem við setjum af þeim."

Vefsíðan Fimmeinn.is fór í loftið þann 22. mars. Arnar Gauti segir þá félaga hafa talið vanta handboltasíðu í samkeppni við vefsíðuna handbolti.org.

„Við vildum betri umfjöllun um handboltann," segir Arnar Gauti.


Tengdar fréttir

Fjalla um kærustur íslenskra leikmanna

Handboltavefurinn Fimmeinn.is hefur bryddað upp á nýjung í íslenskri íþróttaumfjöllun. Þar er vikulega fjallað um um kærustur íslenskra handboltamanna og fylgja oftar en ekki myndir af kærustunum fáklæddum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×