Fótbolti

Thiago keyptur eða enginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Thiago og Pep Guardiola.
Thiago og Pep Guardiola. Nordicphotos/getty
Bayern München er komið í kapphlaup við Manchester United um spænska miðjumanninn Thiago Alcantara. Pep Guardiola, þjálfari Bæjara, vill þann spænska til Þýskalands.

„Ég vil Thiago Alcantara. Ég hef beðið forráðamenn Bayern um að kaupa hann. Við sjáum hvað setur," sagði Guardiola á blaðamannafundi.

Englandsmeistarar Manchester United virtust hafa vænt forskot í kapphlaupinu um Thiago sem vill komast burt frá Barcelona. Þar hafa tækifæri hans í byrjunarliðinu verið af skornum skammti.

„Ég þekki hann mjög vel," sagði Guardiola sem þjálfaði Thiago á sínum tíma hjá Barcelona.

„Thiago er eini leikmaðurinn sem ég vil, það er það sem ég sagði þeim (forráðamönnum Bayern). Annaðhvort kaupum við hann eða engan," sagði Guardiola.

Fróðlegt verður að sjá hvernig Guardiola hyggst nýta Thiago enda eru fá lið jafnvel skipuð í Evrópu þegar kemur að miðjunni en Evrópumeistararnir frá München.

Töluverðar líkur verður að telja að Thiago velji Bayern fram yfir United. Ekki síst ef haft er í huga að umboðsmaður Thiago er enginn annar en Pere Guardiola, bróðir Pep.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×