Fótbolti

Ribéry var besti knattspyrnumaður Evrópu 2012-13

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franck Ribéry.
Franck Ribéry. Mynd/NordicPhotos/Getty
53 sérvaldir blaðamenn frá aðildarlöndum UEFA kusu í kvöld um hver er besti knattspyrnumaður Evrópu 2012-13 og fyrir valinu var Frakkinn Franck Ribéry sem var lykilmaður þegar Bayern München vann þrennuna á síðustu leiktíð.

Franck Ribéry hjá Bayern Munchen, Lionel Messi hjá Barcelona og Cristiano Ronaldo Real Madrid urðu þeir þrír efstu í kjörinu og það var síðan kosið sérstaklega á milli þeirra í Mónakó í kvöld.

Franck Ribéry var með 11 mörk og 16 stoðsendingar í 39 leikjum með Bayern München á síðustu leiktíð og þýska liðið vann 35 af þessum 39 leikjum. Bayern vann Meistaradeildina, þýska meistaratitilinn og þýska bikarinn 2012-13 og Ribéry gerði útslagið í mörgum af mikilvægustu leikjunum. Franck Ribéry lagði meðal annars upp bæði mörk Bayern í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.

Spánverjinn Andrés Iniesta fékk þessi verðlaun í fyrra og Lionel Messi var kosinn þegar verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn fyrir keppnistímabilið 2010-11. Messi og Cristiano Ronaldo hafa verið á topp þrjú í öll þrjú skiptin.

Skapti Hallgrímsson á Morgunblaðinu var fulltrúi Íslands í þessu kjöri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×