Fótbolti

Bayern München auðveldlega í úrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Franck Ribéry fagnar fyrsta markinu.
Franck Ribéry fagnar fyrsta markinu. Mynd/NordicPhotos/Getty
Bayern München vann öruggan 3-0 sigur á kínverska liðinu Guangzhou í undanúrslitum Heimsmeistarakeppni félagsliða í Marokkó í kvöld. Bayern München mætir annaðhvort Raja Casablanca frá Marokkó eða Atlético Mineiro frá Brasilíu í úrslitaleiknum en hinn undanúrslitaleikurinn er spilaður á morgun.

Bayern München skoraði tvö fyrstu mörkin sín á lokakafla fyrri hálfleiksins. Það fyrra skoraði Frakkinn Franck Ribéry með viðstöðulausu vinstri fótar skoti á 40. mínútu en það síðara Króatinn Mario Mandzukic með skutluskalla á 44. mínútu eftir fyrirgjöf Spánverjans Thiago Alcántara.

Mario Götze skoraði þriðja markið með laglegu skoti fyrir utan teig á 47. mínútu eftir að hafa fengið þversendingu frá David Alaba. Þannig urðu lokatölur leiksins en Bayern fékk nóg að færum til að bæta við mörkum.

Ítalinn Marcello Lippi þjálfar lið Guangzhou sem vann asísku Meistaradeildina á síðasta tímabili.

Úrslitaleikurinn fer fram á laugardaginn en Heimsmeistarakeppni félagsliða er haldin árlega á þessum tíma. Brasilíska liðið Corinthians vann Chelsea í úrslitaleiknum í fyrra.

Pep Guardiola, núverandi þjálfari Bayern München, vann þess keppni í tvígang sem þjálfari spænska liðsins Barcelona.



Mynd/NordicPhotos/Getty
Mynd/NordicPhotos/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×