Hinn 37 ára gamli Manning missti af öllu tímabilinu 2011 og var afskrifaður af mörgum. Hann þurfti þá að fara í fjórar aðgerðir vegna hálsmeiðsla.
Félag hans, Indianapolis Colts, ákvað í kjölfarið að rifta samningi við leikmanninn og veðja frekar á Andrew Luck sem þeir völdu fyrstan í nýliðavalinu.
Denver Broncos var til í að veðja á Manning og losaði sig í leiðinni við ungan og efnilegan leikstjórnanda, Tim Tebow.
Það er skemmst frá því að segja að Broncos veðjaði á réttan hest. Manning var frábær í fyrra og enn betri í ár. Hann mun að öllum líkindum bæta met Tom Brady yfir flestar snertimarkssendingar á einu tímabili.
Reyndar er Manning að bæta fjölda meta í vetur en það sem er áhugavert er að hann hefur líklega aldrei spilað betur en í vetur. Margir sérfræðingar vestra segja að aldrei hafi leikstjórnandi spilað jafnvel og Manning er að gera í ár.
