Handbolti

Snorri Steinn frábær í flottum sigri GOG

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Mynd/HSÍ/Hilmar Þór Guðmundsson
Snorri Steinn Guðjónsson og félagar hans í GOG Håndbold unnu sex marka heimasigur á Århus Håndbold, 32-26, í kvöld í dönsku úrvalsdeildinni í handbolta.

Snorri Steinn átti frábæran leik en hann var markahæstur í sínu liði með átta mörk og enginn skoraði meira á vellinum heldur en íslenski landsliðsleikstjórnandinn.

Lars Hald var næstur á eftir Snorra Steini með sex mörk en Henrik Hansen skoraði mest fyrir  eða sjö mörk. GOG hélt Rune Ohm í fimm mörkum en Ohm hefur farið mikinn í dönsku deildinni í vetur.

GOG vann þarna mikilvægan sigur en liðin voru fyrir leikinn jöfn að stigum í 5. og 6. sæti deildarinnar. GOG Håndbold komst upp að hlið AaB Håndbold í 3. sætinu með sigrinum en AaB á leik inni á morgun.

Þetta var þriðji heimasigur GOG í röð og liðið náði jafnframt að stoppa þriggja leikja sigurgöngu Århus Håndbold. Það gekk ekki alltof vel í heimaleikjunum til að byrja með en GOG er nú búið að finna taktinn í GOG Arena.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×