Skoðun

Stóraukinn stuðningur við leigjendur

Lúðvík Geirsson skrifar
Fyrsti áfangi nýs „Húsnæðisbótakerfis“ tók gildi í byrjun þessa árs með hækkun á grunnfjárhæð húsaleigubóta. Enn frekari hækkun á grunnbótum kemur til framkvæmda þann 1. júlí nk.

Samtals er um að ræða heildarhækkun á grunnupphæð um 4.000 kr. á hverjum mánuði. Samhliða hefur tekjuskerðingarhlutfall verið lækkað og tekjumörk hækkuð.

Veruleg hækkun á mánuði

Þessar breytingar þýða umtalsverða hækkun á stuðningi við leigjendur og mun stærri hópur leigjenda á nú rétt á húsnæðisbótum en áður. Sem dæmi um stóraukinn stuðning má nefna að hjón eða sambýlisfólk með eitt barn og 460 þús. krónur í mánaðartekjur fá eftir þessa hækkun rúmar 16.300 kr. á mánuði, en fengu áður engar bætur. Hjón eða sambýlisfólk með tvö börn sem eru með mánaðarlegar heimilistekjur upp á 500 þús. kr. samtals fá eftir þessar hækkanir samtals 21.500 kr. í húsnæðisbætur á mánuði en fengu áður aðeins 3.000 kr. í bætur. Hér er því um verulega hækkun að ræða.

Í samræmi við þá stefnu sem mótuð hefur verið um nýtt húsnæðisbótakerfi undir forystu Samfylkingarinnar koma enn frekari úrbætur og stuðningur, ekki síst við leigjendur til framkvæmda um næstu áramót. Þá verður stuðningur við leigjendur og íbúðareigendur reiknaður út frá fjölda heimilismanna óháð aldri. Þannig verður hætt að skerða bætur þegar börn á heimili hafa náð 18 ára aldri eins og nú er. Jafnframt verða allar húsnæðisbætur greiddar úr mánaðarlega sem er mikið framfaraskref.

Mikilvægt réttlætismál

Í allri umræðu um skuldavanda heimilanna hefur lítið verið vikið að stöðu leigjenda, en þeir sem eru á leigumarkaði hafa þurft að bera mestu raunhækkunina vegna húsnæðiskostnaðar eftir efnahagshrunið. Á síðustu árum hefur leigjendum stórfjölgað og eru nú um fjórðungur allra á húsnæðismarkaði. Það er afar mikilvægt réttlætismál að jafna stöðu leigjenda að sambærilegu marki og sá stuðningur sem íbúðareigendur hafa fengið í formi stórhækkaðra vaxtabóta á síðustu árum.

Sú mismunun sem verið hefur á milli réttinda kaupenda og leigjenda er bæði ósanngjörn og óverjandi. Nú horfir til betri tíðar með stórauknum stuðningi við leigjendur. Fyrstu áfangar nýs húsnæðisbótakerfis hafa þegar tekið gildi og það er mikilvægt að Samfylkingin fái þann styrk og stuðning í komandi þingkosningum að tryggt verði að húsnæðisbótakerfið taki að fullu gildi um komandi áramót.

Þeir sem eru á leigumarkaði ættu að hafa þessi lykilatriði skýrt í huga þegar þeir koma í kjörklefann.




Skoðun

Sjá meira


×