Handbolti

Viljum vinna riðilinn

Stefán Árni Pálsson skrifar
Óreyndir leikmenn íslenska landsliðsins þreyta erfitt próf gegn Hvít-Rússum í dag. Hér er Aron með Ólafi Guðmundssyni.
Óreyndir leikmenn íslenska landsliðsins þreyta erfitt próf gegn Hvít-Rússum í dag. Hér er Aron með Ólafi Guðmundssyni. fréttablaðið/vilhelm

„Standið á liðinu er bara ágætt fyrir leikinn,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Íslands í handknattleik, fyrir leikinn gegn Hvíta-Rússlandi í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik sem fram fer í Danmörku á næsta ári.

Strákunum dugir eitt stig í dag til að tryggja sér sigur í riðlinum og þar með sæti í öðrum af efstu tveimur styrkleikaflokkunum þegar dregið verður í riðla fyrir EM í Danmörku þann 21. júní næstkomandi.

Landsliðið var nýkomið til Minsk þegar Fréttablaðið náði tali af landsliðsþjálfaranum en hann þurfti að gera eina breytingu á hópnum eftir að út var komið.

„Arnór Þór Gunnarsson tognaði á nára á æfingu í gær og verður því ekki með annað kvöld. Finnur Ingi Stefánsson kemur því inn í hópinn í hans stað.“

Mikil forföll eru í íslenska landsliðshópnum og vantar alls sjö lykilleikmenn í liðið. „Við höfum ekki haft mikinn tíma til undirbúnings en þessi breyting á hópnum hefur það í för með sér að við þurfum að fara vel í gegnum öll leikkerfi og einnig ákveðin atriði sem liðið þarf að slípa saman fyrir leikinn. Þetta verður ákveðið próf fyrir suma leikmenn liðsins og gaman að sjá hvernig menn standast það.“

Leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir heimamenn í kvöld og berjast þeir fyrir lausu sæti á lokakeppni Evrópumótsins. „Það verður án efa fullt hús á morgun og mikil stemning. Hvíta-Rússland er með frábært lið og erfitt við að eiga, sérstaklega á heimavelli. Við setjum stefnuna á sigur í riðlinum til að vera eins í góðri stöðu og við getum þegar dregið verður í riðla á EM.“

Leikurinn hefst klukkan 15.00 í dag og er næstsíðasti leikur Íslands í riðlinum. Lokaleikurinn verður gegn Rúmenum í Laugardalshöllinni á sunnudagskvöld klukkan 19.45 en það verður einnig kveðjuleikur Ólafs Stefánssonar með landsliðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×