„Það er enginn bardagi bókaður. Við erum búnir að fá nokkrar fyrirspurnir vegna þessa en ég veit ekkert hvaðan þessi orðrómur kemur,“ segir Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður Gunnars Nelson.
Slúðrað er um það í netheimum að Gunnar eigi að berjast við Jordan Mein á stóru UFC-bardagakvöldi í Manchester í október.
„Ég sá þetta líka á netinu en það er enginn búinn að tala við okkur. Gunnar fór á fyrstu æfinguna sína fyrir helgi og byrjar fyrst núna að æfa af krafti,“ segir Haraldur. Gunnar gekkst undir aðgerð á hné vegna liðþófameiðsla í apríl. Haraldur segir endurhæfinguna hafa gengið vel.
„Hann er fínn í fætinum en á eftir að láta reyna á hann fyrir alvöru. Þangað til lofum við okkur ekki í eitt eða neitt.“
Haraldur segir að vissulega væri gaman ef Gunnar gæti barist á kvöldinu í Manchester í október. Ekkert sé útilokað í þeim efnum en undirbúningstíminn væri í allra stysta lagi.
„Hann er nýstiginn upp úr erfiðum meiðslum og aðgerð á hné. Það væri því ekki gáfulegt,“ segir Haraldur. Hann minnir á að Gunnar sé í bardagaíþróttum til framtíðar og því verði engin óþarfa áhætta tekin.
„Batinn hefur gengið vel og hann hefur farið að ráðum lækna í einu og öllu og passað sig að fara ekki of snemma af stað. Við erum mjög bjartsýnir á framhaldið.“
Sport