Handbolti

Spenna en smá stress fyrir kvöldinu

Stefán Árni Pálsson skrifar
Stella Sigurðardóttir verður í eldlínunni með SønderjyskE í kvöld.
Stella Sigurðardóttir verður í eldlínunni með SønderjyskE í kvöld. Mynd / Haraldur
Það er ávallt draumur hvers íþróttamanns að hafa lifibrauð af íþrótt sinni og gera það sem honum þykir skemmtilegast á hverjum degi.

Þær Stella Sigurðardóttir og Karen Knútsdóttir leika báðar með danska handboltaliðinu SønderjyskE en Stella ákvað eftir síðasta tímabil með Fram að taka skrefið og gerast atvinnumaður í handbolta.

Fram varð Íslandsmeistari í handknattleik í lok síðasta tímabils og því kjörinn tímapunktur fyrir þessa vinstri handar skyttu að kveðja Safamýrina og gerast atvinnumaður.

SønderjyskE mætir dönsku meisturunum í Midtjylland í fyrsta leik á útivelli í kvöld.

„Þetta var klárlega rétta skrefið fyrir mig að koma hingað út og fara í atvinnumennskuna,“ segir Stella Sigurðardóttir.

„Það er frábært að búa hér í þessum fallega bæ og gott að hafa kærastann mér við hlið,“ segir Stella en hún býr í Aabenraa í Danmörk sem er við landamæri Þýskalands. Handknattleiksmaðurinn Tandri Már Konráðsson er sambýlismaður Stellu en hann leikur með danska liðinu TMT og þekkir parið handboltalífið vel. Tandri lék áður með Stjörnunni og HK.

„Þetta voru strax mikil viðbrigði fyrir mig en hér úti eru allir leikir erfiðir og liðin ótrúlega sterk. Við erum með nokkuð sterkan hóp ef hann er fullskipaður en aftur á móti urðum við fyrir mikilli blóðtöku í síðasta æfingaleik liðsins fyrir mót. Þá urðu tvær stelpur fyrir því óláni að meiðast illa og verða nokkuð lengi frá keppni.“

SønderjyskE þarf því á öllu sínum leikmönnum að halda strax frá upphafi móts en línumaður liðsins sleit krossband í hné og verður frá út tímabilið. Einnig er eina örvhenta skytta liðsins töluvert meidd og missir af upphafi mótsins.

„Fyrir utan að þetta eru tveir frábærir leikmenn þá eru þær gríðarlega mikilvægir karakterar í hópnum. Ég mun líklega spila hægra megin fyrir utan í kvöld en ég ætti alveg að ráða við það. Hægri skyttan var í raun mín staða þegar ég kom upp í meistaraflokkinn hjá Fram og ég hóf minn feril þar. Reyndar hef ég lítið leikið þá stöðu í nokkur ár en það ætti samt að ganga upp í leiknum á morgun.“

Stella hefur undanfarin ár verið ein besta handknattleikskona Íslands og farið á kostum í N1-deildinni. Nú er stóra prófið fram undan.

„Það er allt til alls hérna úti og frábærar aðstæður fyrir okkur. Það er einnig gott að hafa íslenskan þjálfara sem maður getur leitað til.“

Ágúst Jóhannsson er þjálfari SönderjyskE sem og landsliðsþjálfari Íslands og þekkir hann því bæði Stellu og Karen vel. Hann tók við liðinu fyrir skömmu en SönderjyskE hafnaði í níunda sæti dönsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili.

„Við ætlum að halda sæti okkar í deildinni á þessu tímabili og það er aðalmarkmið liðsins. Síðan verður staðan tekin um jólin og þá þarf kannski að setja sér ný markmið,“ segir Stella.



„Við erum að fara að mæta dönsku meisturunum í fyrstu umferð og maður er í raun mjög spenntur en einnig er töluvert stress í gangi í hópnum,“ segir Karen Knútsdóttir í samtali við Fréttablaðið.

„Þetta verður líklega nokkuð erfitt tímabil en við höfum fulla trú á okkar mannskap og ætlum okkur að dvelja áfram í efstu deild.“

Karen er leikstjórnandi liðsins. Hún gekk í raðir SønderjyskE í sumar og mikið mun mæða á henni í vetur.

„Ég hef ekki náð að taka nægilega vel þátt í undirbúningstímabilinu en verð klár fyrir leikinn á morgun.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×