Körfubolti

Setti sér þetta markmið fyrir fimm árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson.
Hörður Axel Vilhjálmsson. Mynd/Stefán
Ísland mun eiga tvo leikmenn í spænsku úrvalsdeildinni í vetur eins og á síðasta tímabili. Þetta kom í ljós í gær þegar Hörður Axel Vilhjálmsson samdi við lið CB Valladolid. Jón Arnór Stefánsson spilar áfram með CAI Zaragoza í vetur en Hörður Axel kemur í staðinn fyrir Hauk Helga Pálsson, sem var lánaður til b-deildarliðsins Breogan á dögunum.

„Ég setti mér markmið fyrir fimm árum um að fimm árum seinna yrði ég að spila í ACB-deildinni á Spáni. Hér stend ég eftir endalausa vinnu og endalausar hindranir með samning í höndunum. Þú getur gert nákvæmlega það sem þú vilt með þetta líf, fer allt eftir þínum eigin vilja og trú!“ skrifaði Hörður Axel Vilhjálmsson á fésbókarsíðu sína í gær þegar samningurinn var í höfn.

Hörður Axel spilaði með Mitteldeutscher BC í þýsku úrvalsdeildinni á síðasta tímabili, þar sem hann var með 9,6 stig og 3,0 stoðsendingar að meðaltali á 23,4 mínútum í leik. Hörður Axel er 25 ára bakvörður sem er uppalinn í Fjölni en spilaði með Njarðvík og Keflavík áður en hann fór út.

Fyrsti leikur CB Valladolid verður á útivelli á móti Real Madrid en fyrsti Íslendingaslagur tímabilsins verður ekki fyrr en á milli jóla og nýárs þegar Jón Arnór og félagar í CAI Zaragoza taka á móti Herði og félögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×