Danska handboltasambandið tilkynnti það á blaðamannafundi í dag að sambandið búist við miklum gróða af EM í handbolta sem hefst í næstu viku.
Danir halda EM í karlahandbolta seinna í þessum mánuði og Per Bertelsen, formaður danska sambandsins, er stoltur af því að fjölmargir sjálfboðaliðar munu aðstoða danska sambandið í kringum mótið.
„Við búumst við 15 milljóna gróða og þá er ég ekki bjartsýnn. Félögin mun njóta góðs af þessum ágóða af keppninni. Handboltinn í Danmörku mun standa sterkur eftir þetta mót," sagði Per Bertelsen á blaðamannafundinum.
Fimmtán milljónir danskra króna eru um 318 milljónir í íslenskum krónum og það er að heyra á formanninum að þessi tala gæti hækkað.
Ísland er í riðli með Noregi, Ungverjalandi og Spáni og leikur sinn fyrsta leik á móti Noregi sunnudaginn 12. janúar næstkomandi.
„Hinar þjóðirnar sem hafa haldið þessi stórmót hafa borgað sínum starfsmönnum en við erum með tólf hundruð sjálfboðaliða," sagði Bertelsen.

